
Jæja þá er ég að herða mig upp í eldhúsinu eftir smá sumarpásu svo nýjar uppskriftir munu streyma inn á næstunni fyrir ykkur að njóta hvort sem þið eruð í sumarfríi eða að brasa eitthvað allt annað.

Þessar bruschettur útbjó ég sem forrétt um helgina og við sátum úti á palli að borða þessa dásemd og skála í freyðivíni. Ég keypti marglita litla tómata til að gera þær sumarlegar og sætar en auðvitað má nota bara rauða. Þær henta vel sem forréttur, smáréttur eða bara hvað sem er, namm!
Sumarlegar bruschettur
- 1 stk Ciabatta snittubrauð
- 300 g smátt skornir tómatar
- 150 g mulinn fetakubbur
- ½ smátt saxaður rauðlaukur
- 1 lúka söxuð fersk basilika
- 1 hvítlauksrif
- Salt og pipar
- Balsamik gljái
- Silencio virgin ólífuolía frá Torres
- Skerið brauðið í um 1 cm þykkar sneiðar (ég náði 15 sneiðum úr einu snittubrauði).
- Drisslið Silencio ólífuolíu yfir sneiðarnar og grillið í ofni við 225°C í 3-4 mínútur, takið út, nuddið sneiðarnar með hvítlauk og leyfið þeim aðeins að kólna.
- Blandið tómötum, fetakubb, rauðlauk og basiliku saman í skál, hellið 2-3 msk af Silencio ólífuolíu saman við, blandið varlega saman og saltið og piprið eftir smekk.
- Setjið vel af blöndu á hverja sneið, drisslið að lokum yfir með ólífuolíu og balsamik gljáa.

Þetta var hinn fullkomni forréttur sem friðaði svanga malla og hægt var að dunda sér við að útbúa aðalréttinn.
