
Ég er allt of lengi búin að ætla mér að útbúa fylltar sætar kartöflur, held þetta sé búin að vera á aðgerðarlistanum í nokkur ár, síðan ég sá svipaða hugmynd í erlendu blaði hjá frænku minni. En þannig týnist tíminn og loksins fór ég í tilraunastarfsemi sem ég sé svo sannarlega ekki eftir, nammi, namm þetta var alveg geggjað!

Fylltar sætar kartöflur
- 4 stk sætar kartöflur
- Ólífuolía
- 12 sneiðar beikon
- 200 g Cheddar ostur
- 4 x vorlaukur
- 3 msk Hellmann‘s Chili Mayo (+ meira til skrauts)
- Salt og pipar eftir smekk
- Penslið þunnu lagi af ólífuolíu á heilar kartöflurnar (eða makið á með höndunum).
- Bakið þær síðan á bökunarpappír í 200° heitum ofni þar til þær mýkjast (yfirleitt 50-70 mínútur eftir stærð en best að stinga prjóni í þær til að vera viss).
- Steikið beikonið þar til stökkt, leggið á pappír og myljið síðan.
- Rífið ostinn og saxið vorlaukinn.
- Þegar kartöflurnar eru mjúkar má skera í þær smá gat/vasa og moka úr þeim í skál (gott að skilja samt þunnan „kartöfluvegg“ eftir allan hringinn.
- Blandið síðan saman kartöflumauki, Chili majónesi, beikoni, osti og vorlauk (skiljið hluta af osti, beikoni og lauk eftir til að skreyta með).
- Komið því næst maukinu aftur fyrir í kartöflunni, stráið osti og beikoni yfir og bakið aftur í 5-10 mínútur eða þar til osturinn er bráðinn.
- Þegar kartöflurnar eru tilbúnar má „drissla“ Chili mæjónesi yfir þær allar og smá vorlauk.
- Þessar kartöflur eru dásamlegt meðlæti með ýmsum mat.

Þessar kartöflur voru einnig mjög góðar einar og sér svo það má leika sér með þessa uppskrift, hún getur verið meðlæti, snarl, aðalréttur eða hvað sem ykkur dettur í hug.

Þetta Chilli mayonnaise er brjálæðislega gott með næstum því öllu get ég sagt ykkur, hahaha!

Minni á Gotterí á INSTAGRAM, megið endielga fylgja mér þar líka!