
Þessar kökur eru DÁSAMLEGAR, ég setti þær í Instastory um daginn og fékk fullt af fyrirspurnum og loksins koma þær hingað fyrir ykkur að prófa!
Ég bakaði þær eitt kvöldið fyrr í sumar og mér fannst þær bestar aðeins volgar með ískaldri mjólk!
Síðan lærði ég eitt nýtt í dag sem ég hafði ekki hugmynd um að ég væri að gera vitlaust. Hún Þóra snillingur á Matarvefnum sagði mér að alltaf þegar maður væri að gera tsk, msk, stk og þess háttar þá ætti að koma punktur á eftir, já krakkar mínir, framvegis ætla ég því að reyna að vanda mig og hafa þetta rétt!

Uppskrift
- 480 g hveiti
- 1 tsk. matarsódi
- ½ tsk. salt
- 80 g bökunarkakó
- 355 g smjör við stofuhita
- 230 g sykur
- 210 g púðursykur
- 2 egg
- 3 tsk. vanilludropar
- 150 g gróft saxað suðusúkkulaði
- 300 g súkkulaðidropar
- Sjávarsalt
Aðferð
- Hitið ofninn 175°C.
- Hrærið saman hveiti, matarsóda, salti og bökunarkakó og leggið til hliðar.
- Þeytið saman smjör og báðar tegundir af sykri þar til létt og ljóst.
- Bætið eggjunum saman við, einu í einu og skafið og þeytið vel á milli og setjið þá vanilludropana útí.
- Bætið næst þurrefnunum saman við í nokkrum skömmtum þar til vel blandað.
- Að lokum má blanda söxuðu suðusúkkulaðinu og 3/4 af súkkulaðidropunum saman við (restin fer ofan á).
- Rúllið um 1 msk af deigi í kúlu og skiptið niður á bökunarplötur með góðu millibili.
- Bakið í 8 mínútur, takið út og raðið súkkulaðidropum á hverja köku og bakið þá aftur í 4 mínútur og stráið strax smá sjávarsalti yfir kökurnar.
Megið endilega fylgja mér á INSTAGRAM og merkja @gotterioggersemar ef þið prófið þessa dásemd eða aðrar uppskriftir af síðunni!