
Það er rétt rúmur mánuður til jóla og því ekki seinna að vænna en byrja að baka eitthvað gómsætt. Ég gerði æðislegar engiferkökur um daginn og þetta er því sort númer tvö fyrir þessi jólin, enda eina vitið að baka þetta allt með góðum fyrirvara og neyta strax því nóg er af kræsingunum yfir hátíðarnar sjálfar!

Þessa uppskrift sá ég á Sally’s Baking Addiction og hreinlega varð að prófa hana og hingað er hún komin fyrir ykkur!

Til hamingju vörurnar eru komnar í nýjar og litríkari pakkningar en áður svo nú er auðveldara að finna þær í búðunum, þið þekkið þær á broskallinum!

Heslihnetusmákökur með súkkulaðidýfu
- 170 g smjör við stofuhita
- 130 g púðursykur
- 1 egg
- 1 tsk. vanilludropar
- 250 g hveiti
- ½ tsk. kanill
- ¼ tsk. salt
- 100 g Til hamingju hakkaðar heslihnetur + meira til skrauts
- 250 g suðusúkkulaði til skrauts
- Þeytið saman púðursykur og smjör þar til létt og ljóst.
- Bætið egginu saman við ásamt vanilludropunum og skafið niður á milli þess sem þið hrærið vel.
- Blandið hveiti, kanil og salti saman í skál og setjið út í smjörblönduna í nokkrum skömmtum.
- Að lokum fara hakkaðar heslihneturnar saman við og deiginu er þá hellt yfir á hveitistráðan flöt.
- Gott er að vera líka með smá hveiti á höndunum og skipta deiginu í tvo jafna hluta.
- Hvorum hluta er síðan rúllað upp í þétta pylsu sem er um 5 cm í þvermál, rúllan er plöstuð og sett í kæli yfir nótt.
- Daginn eftir er hvor rúlla um sig skorin (þegar hún er köld) í um 12-14 sneiðar og sneiðarnar bakaðar við 180°C í um 15-17 mínútur eða þar til þær gyllast vel í köntunum.
- Kökurnar eru kældar á grind og því næst er suðusúkkulaði brætt og kökunum dýft til hálfs í súkkulaðið.
- Hökkuðum heslihnetum er þá stráð yfir súkkulaðihlutann og súkkulaðinu leyft að storka að nýju áður en bera má kökurnar fram.

Þessar eru sko jólalegar og fallegar!

Þær eru ekki bara fallegar heldur æðislega góðar líka, sem skiptir jú meira máli!

Megið endilega fylgja Gotterí á INSTAGRAM