
Ég verð að viðurkenna að ég datt í smá jólaskap þegar ég var að gera þessa færslu. Þessar engiferkökur eru æðislegar og fullkomnar í haustveðrinu með heitu súkkulaði.

Þetta heita súkkulaði er með smá kanil- og engiferkeim og passar ótrúlega vel með þessum dásamlegu kökum.

Engiferkökurnar eru stökkar að utan og mjúkar að innan, alveg eins og það á að vera!

Rúmfatalagerinn selur þessa undurfallegu bolla og skálar ásamt öðru sem er hér á myndunum. Þegar ég fór í heimsókn þangað á dögunum sá ég að það er mikið nýtt og skemmtilegt til í búðinni og ég er nokkuð viss um að jólavörurnar voru að byrja að streyma í hús svo það má alveg leyfa sér að fara í smá jólaskap þó rúmir tveir mánuðir séu til jóla!
Hér finnið þið linka á vörurnar í þessari færslu:

Engiferkökur
Um það bil 45 stykki
- 250 g smjör við stofuhita
- 460 g púðursykur
- 2 egg
- 2 tsk. vanilludropar
- 500 g hveiti
- 2 tsk. lyftiduft
- 1 tsk. matarsódi
- 2 tsk. kanill
- 1 tsk. negull
- 1 ½ tsk. engiferduft
- ½ tsk salt
- Sykur til að rúlla upp úr
- Setjið öll þurrefnin í skál fyrir utan púðursykur og leggið til hliðar.
- Þeytið saman púðursykur og smjör þar til létt og ljóst.
- Bætið eggjunum saman við einu í einu og skafið vel niður á milli, þeytið vel.
- Bætið vanilludropunum við og því næst öllum þurrefnunum í nokkrum skömmtum og hnoðið aðeins í lokin.
- Kælið deigið í 30-60 mínútur.
- Rúllið í kúlur (um það bil matskeið á stærð), þrýstið létt ofan á þær og rúllið upp úr sykri.
- Bakið við 200 °C í um 10 mínútur.

Heitt súkkulaði með kanilkeim
Uppskriftin dugar í 2 bolla
- 400 ml nýmjólk
- 80 g suðusúkkulaði
- 2 tsk smjör
- ½ tsk. kanill
- ¼ tsk. engiferduft
- Þeyttur rjómi
- Hitið mjólk, súkkulaði og smjör saman þar til bráðið.
- Setjið kanil og engiferduft saman við og blandið vel, hellið í glös og setjið þeyttan rjóma yfir.

Megið endilega fylgja Gotterí á INSTAGRAM