Tulipop afmæliTulipop birthday

Elsku Viktor Breki þeirra Tinnu og Gunnsteins varð tveggja ára á dögunum. Hún Tinna er algjör kökugerðarmeistari og líkt og í fyrra á eins árs afmælinu hans þá sendi hún mér myndir, uppskriftir og upplýsingar til þess að ég gæti deilt með ykkur.

Tulipop afmæli

Hversu mikill snillingur er hún Tinna! Hér kemur Mr. Tree í öllu sínu veldi, ein flottasta kaka sem ég hef séð og sjáið hvað Viktor Breki er hissa á þessu öllu saman litla krúttið.

Afmæliskaka – Mr. Tree

7 hæðir af köku (6 botnar bakaðir í 20,5cm formi og 1 botn bakaður í 10,5cm formi)

Skar hvern kökubotn í tvennt með kökuskera og skar svo bunguna líka af efri botninum til að allir botnar væru fullkomlega flatir. Bakaði 3 þykka botna í 20,5cm kökuforminu og skar þá alla í tvennt. Notaði ekki nema 5 hálfa 20,5cm kökubotna og einn varð afgangs. Hélt bungunni á efri botnium á 10,5cm kökunni til að setja á toppinn og fá kúptan topp á kökuna.

Uppskrift – kaka

3 bollar hveiti
1 ¼ bolli kakó
2 ½ tsk lyftiduft
1 ½ tsk matarsódi
¾ tsk salt
3 egg
1 ½ bolli mjólk
¾ bolli matarolía
1 msk vanilludropar
2 ¾ bolli sykur
1 bolli sjóðandi heitt vatn

Aðferð

 1. Hita ofninn í 175 gráður (blástur ef baka á fleiri en einn botn í einu).
 2. Hræra saman hveiti, kakó, lyftidufti, matarsóda og salti og setja til hliðar.
 3. Hræra saman eggjum, mjólk, olíu og vanilludropum í hrærivél. Bæta svo við sykri og hinum þurrefnunum og blanda saman fyrst á litlum hraða og auka svo hraðann í miðlungs hraða í u.þ.b. 2 mínútur. Takið skálinu svo af hrærivélinni og bætið sjóðandi heitu vatni saman við deigið og hrærið varlega í með sleif. Látið deigið svo hvíla í 15 mín og hrærið létt í því með sleif áður en þið hellið deiginu í kökuform.
 4. Bakað í ca hálftíma (best að stinga prjóni í kökuna í lok bökunartímans, ef prjóninn kemur ekki hreinn upp, þá er kakan ekki tilbúin).
 5. Þegar búið er að kæla alla botnana og skera þá í tvennt, þá er hægt að stafla þeim upp á kökudisk og setja súkkulaðismjörkrem á milli laga (sjá uppskrift hér að neðan).
 6. Að lokum skal hjúpa kökuna með súkkulaðismjörkremi til að loka henni og síðan skreyta hana með lituðu vanillusmjörkremi (sjá uppskrift hér að neðan).

Súkkulaðismjörkrem

 • 125gr smjör (við stofuhita)
 • 500gr flórsykur
 • 2 tsk vanilludropar
 • 4 msk sýróp
 • 4 msk bökunarkakó
 1. Setjið öll hráefnin nema flórsykur og kakó í hrærivélarskálina og hrærið vel saman.
 2. Blandið flórsykri og kakó saman og bætið varlega útí blönduna, skafið niður á milli og hrærið þar til kremið er slétt og fellt.

Vanillusmjörkrem

3 bollar ósaltað smjör
6 bollar flórsykur
2 tsk vanilludropar
¼ tsk salt

 1. Setja smjör við stofuhita í hrærivélaskál og hræra það saman þar til létt og ljóst. Öðru hvoru þarf að nota sleikju og skafa smjörið niður af hliðum hrærivélaskálarinnar.
 2. Bæta svo flórsykrinum saman við í skömmtum, einum bolla í einu og hræra þar til öllu er vel blandað saman. Öðru hvoru þarf að nota sleikju og skafa smjörið niður af hliðum hrærivélaskálarinnar.
 3. Bætið síðan vanilludropunum og saltinu saman við og hrærið saman við smjörkremið.
 4. Kökulit er svo hrært saman við smjörkremið (í þessari köku var notast við græna og svarta kökuliti til að fá þessa tvo grænu tóna á smjörkremið). Gott að gera litaprufur á lítinn hluta smjörkremsins til að finna rétta litinn, áður en maður litar allt kremið.
 5. Að lokum er smjörkreminu sprautað á kökuna. Í þessari köku var notast við hringlaga stút frá Wilton (Large Round Tip) og 1cm breiðan sjörkremsspaða.

Kakan var svo skreytt með hornum af ónýtum Mr. Tree lampa (hornin voru söguð af). Stuttum grillprjónum var stungið inn í hornin og svo inn í kökuna. Augun voru einnig fengin af ónýta Mr. Tree lampanum. Best er að setja skraut sem þetta á kökuna strax, eða áður en smjörkremið hefur storknað. Hægt væri að föndra bæði horn og augu úr sykurmassa sé þess óskað.

Ísvöffluformin eru keypt í Krónunni og ískúlurnar eru Mjúkís með sitthvorri bragðtegundinni.

Hrískökur slá alltaf í gegn og hér kemur uppskrift af slíkum.

Uppskrift

 • 50 g smjör
 • 225 g sýróp (Lyle’s í grænu dósunum best)
 • 200 g suðusúkkulaði
 • 135 g Rice Krispies

Aðferð

 1. Hitið saman smjör, sýróp og súkkulaði þar til bráðið. Hækkið hitann þá aðeins og leyfið að bubbla í 1-2 mínútur og takið þá af hellunni.
 2. Hrærið Rice Krispies saman við og skiptið niður í form.

Namm! Hver elskar ekki marengsbombur!

Marengs (2 dl. sykur á móti 1dl púðursykri og 2 bollar rice crispies). Fylling þeyttur rjómi, 2 kókosbollur stappaðar og Nóa kropp). Skreytt með karamellukremi (Fílakaramellur og rjómi), Nóa kropp, karamellukurli frá Nóa Siríus, salthnetum og blæjuberjum.

Skyrtertan er uppskrift frá bloggi Tinnu Alavis og heitir CRÈME BRÛLÉE SKYRKAKA, mmmm hún lítur vel út!

Ávaxta- og grænmetisbakki með niðurskornum melónum, grænum paprikum, gúrkum, ananas, bláberjum og vínberjum. Skreyttur með ananaslaufum.

Þetta er ofurkrúttlegt afmælisborð fyrir 2ja ára gutta!

Skrautið í veislunni

 • Blöðrur og stjörnuljós með tölustafnum 2 voru keypt í Partýbúðinni.
 • Álblaðran er keypt í Tulipop versluninni.
 • Borðskrautið var föndrað úr Tulipop gjafapoka og litabækurnar og límmiðarnir fást í Tulipop versluninni.
 • Veifur, papparör, kökuskraut, kerti á kökuna og cupcake form voru keypt í Søstrene Grene.
 • Pappaglös, pappadiskar og servíettur eru keyptar í Krónunni.

Hversu mikil snilld er að leyfa gestunum að lita í litabók sem er í stíl við afmælisþemað!

Það er alltaf gaman að hafa nokkrar blöðrur til að punta upp á rýmið!

Þetta er snilldarlausn til að bjóða upp á ís.

Megið endilega fylgja Gotterí á INSTAGRAM

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun