Laufabrauð



Laufabrauð

Mamma og pabbi gerðu alltaf laufabrauð þegar ég var lítil. Ég man eftir mér á Lindarbrautinni að skera út með járninu og fletta. Mér fannst laufabrauð hins vegar ekki neitt sérstaklega gott fyrr en á fullorðinsárum og nú þykir mér það ómissandi hluti af jólaundirbúningi.

Laufabrauð

Það gefst ekki alltaf tími til þess að útbúa laufabrauð en mikið sem ég vona við náum að hafa þetta árlega hefð í jólaundirbúningi með mömmu og pabba, það er svo gaman að stússa í einhverju svona saman.

Laufabrauð uppskrift

Það var hún Elín Heiða dóttir mín sem var alveg staðráðin í að við yrðum að gera laufabrauð með ömmu og afa þetta árið því hún hefði verið að gera laufabrauðspressu í smíði í Varmárskóla (sjá mynd). Ég lét mömmu því strax vita og við festum dag til verksins.

Laufabrauð

Við hittumst því síðastliðinn sunnudag, pöntuðum pizzu og flöttum út og steiktum laufabrauð. Pabbi var búinn að gera deigið klárt og kom með það tilbúið í rúllum, algjör lúxus fyrir okkur hin.

Það var hamagangur í eldhúsinu þetta kvöld og skemmtu sér allir vel. Pabbi gerði tvöfalda uppskrift og því fengu allir nóg af kökum.

Uppskriftin er úr smiðju Helgu Sigurðardóttur en mamma gaf mér uppskriftina úr bókinni hennar og nú kemur hún hingað inn fyrir ykkur. Helga mælir með að njóta laufabrauðsins með smjöri og hangikjöti og er það dásamlega einfalt og gott svo ég mæli einnig með því þó svo það megi nú setja ýmislegt annað álegg á laufabrauð.

Laufabrauð

  • 1 kg hveiti
  • ¼ tsk hjartarsalt
  • 1 tsk salt
  • 6-7 dl mjólk
  • Palmín feiti til að steikja upp úr
  1. Hveiti, hjartarsalti og salti er blandað saman í skál og lagt til hliðar.
  2. Mjólkin er hituð að suðu og hellt út í hveitiblönduna (byrjið á 6 dl og bætið við eftir þörfum).
  3. Hnoðað saman þar til gljáandi, fremur seigt og sprungulaust deig hefur myndast.
  4. Mótið í lengju og skerið í bita jafnóðum til að fletja út eina og eina köku á hveitistráðum fleti (ekki er hægt að endurhnoða endana svo reynið að skammta ekki of miklu umfram, þá er hins vegar hægt að steikja og snarla á).
  5. Hver kaka er flött mjög þunnt út, diskur/annað hringlaga lagt yfir og skorin út kaka sem síðan er skorin með margs konar laufaskurði (notast við sérstakt laufabrauðsjárn). Munið að pikka síðan hverja köku áður en hún er steikt.
  6. Geymið kökurnar undir bökunarpappír eða viskastykki þegar þær eru tilbúnar svo þær þorni ekki of mikið fyrir steikingu.
  7. Steikið kökurnar á báðum hliðum þar til þær verða ljósbrúnar. Sú hlið kökunnar sem snýr upp þegar skorið er í hana, snýr fyrst niður í steikingapottinum.
  8. Gott er að nota laufabrauðspressu strax þegar kökurnar koma upp úr pottinum og pressa létt niður, þannig staflast þær betur og verða flatari.
  9. Gott er að bera laufabrauðið fram með smjöri og hangikjöti.

Deigið má gera deginum áður og geyma með rökum klút í ísskáp.

Laufabrauð uppskrift

Megið endilega fylgja Gotterí á INSTAGRAM

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun