
Það eru nokkrar uppskriftir af vatnsdeigsbollum hér á síðunni sem allar eru góðar. Að þessu sinni langaði mig að þróa hina fullkomnu uppskrift af bollum sem öllum tækist að baka.

Um er að ræða nokkuð hefðbundna uppskrift nema nú prófaði ég að setja lyftiduft í uppskriftina eftir að hafa fengið ráð um það hjá vini mínum. Ég prófaði mig áfram með magn af hveiti, smjöri og eggjum og nú held ég að ég sé komin með uppskrift til að halda í um ókomin ár!

Það sem er síðan svo gaman við Bolludaginn er að það eru bollur um allt í öllum stærðum og gerðum. Mér finnst best að hafa mjúkan súkkulaðiglassúr og er með mína uppáhalds uppskrift af slíkum hér fyrir neðan. Síðan er svo gaman að fylla þessar dúllur með alls konar mismunandi fyllingum og getur því hver og einn stjórnað því hvað hann vill helst.

Hér fyrir neðan finnið þið skothelda vatnsdeigsbolluuppskrift ásamt uppskrift af fjórum mismunandi fyllingum svo nú er bara að finna sitt uppáhald.

Vatnsdeigsbollur
Um 15 stykki
- 180 g smjör
- 360 ml vatn
- 200 g hveiti
- 1 tsk. lyftiduft
- ¼ tsk. salt
- 4 egg (160 g)
- Hitið ofninn 180°C blástur.
- Hrærið hveiti, lyftidufti og salti saman í skál og geymið.
- Hitið saman vatn og smjör í potti þar til smjörið er bráðið og blandan vel heit, leyfið að bubbla í eina mínútu og takið þá af hellunni.
- Hellið hveitiblöndunni saman við smjörblönduna og hrærið/vefjið saman við með sleif þar til allir kekkir eru horfnir og blandan losnar auðveldlega frá köntum pottsins.
- Flytjið blönduna yfir í hrærivélarskálina og hrærið á lægsta hraða með K-inu og leyfið hitanum þannig að rjúka aðeins úr blöndunni á meðan þið gerið eggin tilbúin. Blandan á rétt að vera örlítið volg þegar eggin fara saman við.
- Pískið eggin saman í skál og setjið þau saman við í litlum skömmtum og skafið niður á milli, gott er að vigta þau og nota ekki meira en 160 g af blöndunni þar sem egg eru svo misstór og ekki gott að blandan verði of þunn.
- Setjið bökunarpappír á ofnplötur og hver bolla má vera um 2 matskeiðar af deigi (ein vel kúpt matskeið).
- Bakið í 27-30 mínútur, bollurnar eiga að vera orðnar vel gylltar og botninn líka, ekki opna þó ofninn fyrr en í fyrsta lagi eftir 25 mínútur til að kíkja undir eina. Helstu mistök sem fólk gerir er að baka bollurnar ekki nógu lengi en þá gætu þær átt það til að falla. Ef þær falla þá má samt alveg fylla þær og borða, þær eru alveg jafn góðar, bara ekki eins fallegar.
Glassúr
- 100 g brætt smjör
- 210 g flórsykur
- 3 msk. Cadbury bökunarkakó
- 3 tsk. vanilludropar
- 2 msk. kaffi (uppáhellt)
- Allt sett saman í skál og hrært saman með písk/skeið þar til vel blandað.
- Best er að fylla bollurnar fyrst og setja svo væna teskeið af glassúr ofan á „lokið“ og dreifa aðeins úr og síðan skreyta áður en glassúrinn tekur sig. Því er gott að setja glassúr á 3-4 í einu , skreyta þær og halda síðan áfram.

Hér fyrir neðan koma síðan nokkrar mismunandi fyllingar sem henta fyrir ofangreinda vatnsdeigsbolluuppskrift svo nú er ykkar á velja á milli! Að sjálfsögðu má velja fleiri en eina en þá er gott að skipta rjómanum niður og setja mismunandi góðgæti út í.

Oreofylling
- 500 ml þeyttur rjómi
- 8 msk. mulið Oreo með kremi + meira til skrauts
- Vefjið Oreo Crumbs varlega saman við rjómann og sprautið vel af rjóma á hverja bollu.
- Stráið Oreo Crumbs ofan á glassúrinn í lokinn og skreytið með smá brúðarslöri sé þess óskað.

Oreo mylsna með kremi er nýjung frá Oreo og er algjör snilld í fyllingar, út á ís, í mjólkurhristing, í krem á kökur, í ostakökur eða hvað eina, mæli sko sannarlega með!

Hindberjadraumur
- 500 ml þeyttur rjómi
- 100 g saxað hvítt Toblerone
- 80 g Driscoll‘s hindber (stöppuð með gaffli)
- 5 msk. kókosmjöl + meira til skrauts
- Toblerone, berjum og kókosmjöli vafið saman við rjómann og síðan er fallegt að strá smá kókosmjöli og skreyta með berjum þegar búið er að setja glassúrinn á.

Súkkulaðisæla
- 500 ml þeyttur rjómi
- 2 msk. Cadbury bökunarkakó
- 100 g saxað súkkulaði Toblerone
- Driscoll‘s rifsber til skrauts
- Vefjið bökunarkakói varlega saman við rjómann þar til hann er ljósbrúnn.
- Blandið þá um 2/3 af söxuðu Toblerone saman við rjómann og sprautið á milli.
- Skreytið með söxuðu Toblerone og rifsberjum.

Jarðaberjafylling
- 500 ml þeyttur rjómi
- 10-15 stk Driscoll‘s jarðaber (stöppuð vel með gaffli/sett í blandara) + fleiri til skrauts
- Vefjið stöppuðum jarðaberjum varlega saman við rjómann og sprautið á milli.
- Skreytið með því að setja ¼ af jarðaberi á hverja bollu þegar glassúrinn er kominn á.
Hér er síðan á ferðinni barnvæn útgáfa af skreytingu en dætrum mínum finnst afar gaman að skreyta bollur með kökuskrauti svo það er um að gera að leyfa ímyndunaraflinu að ráða.

Megið endilega fylgja Gotterí á INSTAGRAM