
Loksins fann ég dásamlega Burrata ostinn eftir flakk á milli hinna fjölmörgu verslana. Þessi er frá MS en hann er til í mjög takmörkuðu upplagi enn sem komið er en hann var til í Hagkaup í Kringlunni í það minnsta. Frú Lauga er einnig oft með Burrata ost og síðan vona ég bara þessi dásemd fari að vera til víðar því þessi ostur hentar mjög vel í ýmiss konar matargerð.

Við fórum í Friðheima um daginn þar sem við fengum svipaða útfærslu með þessum osti og mig langaði mikið að leika þetta eftir. Gleymdi hins vegar að kaupa pestó þar sem ég hélt það væri til í skúffunni heima en þetta var alveg dásamlegt svona en auðvitað má bæta smá grænu pestói við fyrir þá sem vilja. Heirloom tómata fann ég heldur ekki í verslunum og engir bufftómatar voru heldur í boði svo úr varð þessi samsetning sem var engu að síður alveg dásamleg.

Burrata ostur á tómatabeði
- 2 x Burrata ostakúla
- 600 g kirsuberjatómatar
- 3 msk. söxuð basilika
- Virgin ólífuolía
- Gróft salt og pipar
- Skerið tómatana niður, setjið í skál og basilikuna saman við.
- Setjið ólífuolíu, salt og pipar eftir smekk í blönduna.
- Hellið á fallegan disk og setjið Burrata ostinn ofan á.
- Dreypið smá ólífuolíu, salti og pipar yfir ostinn og njótið.
- Einnig getur verið gott að setja smá grænt pestó eða balsamik gláa yfir í lokin.

Megið endilega fylgja Gotterí líka á Instagram