
Já krakkar mínir, það er SNÚÐA-tími! Ég hugsa ég gæti bakað yfir mig af undurljúffengum og mjúkum snúðum og eru allnokkrar slíkar uppskriftir hér á síðunni. Í tilefni af BLEIKUM október langaði mig til þess að gera snúða með bleiku kremi og fór í smá tilraunastarfsemi fyrir ykkur.

Ég hef gert Himnesku kanelsnúðana í ýmsum útfærslum undanfarin ár og þeir eru auðvitað guðdómlegir. Það tekur hins vegar mjög langan tíma að bíða á meðan þeir hefast svo mig langaði að kanna hvort það væri til smá „hraðferð“ að svipuðum snúðum án þess að það kæmi niður á gæðunum. Þessa snúða hér lét ég aðeins hefast 2 x í 45 mínútur og þeir voru algjörlega dásamlegir og ofurmjúkir svo við erum sannarlega búin að finna fljótlegri leið til þess að gera undursamlega snúða!

Bleikir „Cinnabon“ kanilsnúðar
Snúðadeig
- 670-700 g Polselli 00 hveiti
- 1 pk. þurrger (11,8 g)
- 120 g smjör (+ til að smyrja formið)
- 250 ml nýmjólk
- 100 g sykur
- 1 tsk. salt
- 2 egg (pískuð)
- 2 tsk. vanilludropar
- Setjið hveiti og þurrger í hrærivélarskálina og blandið saman (haldið eftir hluta af hveitinu þar til í lokin).
- Bræðið smjörið í potti og hellið síðan mjólk, sykri og salti saman við og hrærið þar til ylvolgt.
- Hellið saman við hveitiblönduna og hrærið með króknum á meðan.
- Bætið eggjum og vanilludropum saman við og síðan restinni af hveitinu ef þurfa þykir.
- Egg eru misstór og því þarf mismikið hveiti. Setjið hveiti þar til deigið hnoðast vel saman en er samt frekar blautt í sér, þó ekki þannig að það festist við lófana.
- Náið því þá úr hrærivélinni og hnoðið saman í höndunum, penslið skál með matarolíu og veltið deiginu uppúr henni, plastið og leyfið að hefast í um 45 mínútur.
- Fletjið þá út á hveitistráðum fleti í um 40 x 50 cm og smyrjið kökuform/eldfast mót sem er um 25 x 35 cm að stærð vel með smjöri.
Fylling
- 220 g púðursykur
- 3 msk. kanill
- 100 g smjör við stofuhita
- Smyrjið útflatta deigið jafnt með smjöri.
- Blandið saman sykri og kanil og dreifið yfir deigið.
- Rúllið upp frá lengri endanum, skiptið niður í 12 einingar og raðið í formið.
- Plastið að nýju og leyfið að hefast aftur í um 45 mínútur.
- Bakið þá við 180°C í um 20-25 mínútur eða þar til snúðarnir verða vel gylltir.
- Leyfið snúðunum að standa í um 15 mínútur áður en þið setjið kremið á þá.
Rjómaostakrem
- 100 g rjómaostur við stofuhita
- 60 g smjör við stofuhita
- 200 g flórsykur
- 1 tsk. vanilludropar
- Salt af hnífsoddi
- Bleikur matarlitur (sé þess óskað) og kökuskraut
- Þeytið saman rjómaost og smjör.
- Bætið flórsykri saman við í nokkrum skömmtum, skafið niður á milli.
- Bætið salti og vanilludropum við í lokin ásamt matarlit, sé þess óskað og smyrjið yfir volga snúðana ásamt því að strá kökuskrauti yfir.

Polselli 00 pizza hveitið fæst Melabúðinni, Stórkaup, Fjarðarkaup, Hlíðarkaup, Pétursbúð, Þín verslun Kassinn , Smáalind, Hamóna, Sandholt, Lindabakarí, Nesbrauð, Kallabakarí, Sesam brauðhús og GK Bakarí.

Rjómaostakreminu má smyrja á snúðana meðan þeir eru ylvolgir, þá bráðnar það örlítið niður í þá og gerir þá enn betri.

Nýbakaðir snúðar gleðja svo sannarlega í skammdeginu!
