Bleikir „Cinnabon“ kanilsnúðar⌑ Samstarf ⌑
Cinnabon kanelsnúðar með rjómaostakremi

Já krakkar mínir, það er SNÚÐA-tími! Ég hugsa ég gæti bakað yfir mig af undurljúffengum og mjúkum snúðum og eru allnokkrar slíkar uppskriftir hér á síðunni. Í tilefni af BLEIKUM október langaði mig til þess að gera snúða með bleiku kremi og fór í smá tilraunastarfsemi fyrir ykkur.

Dúnmjúkir kanelsnúðar eins og á Cinnabon í USA

Ég hef gert Himnesku kanelsnúðana í ýmsum útfærslum undanfarin ár og þeir eru auðvitað guðdómlegir. Það tekur hins vegar mjög langan tíma að bíða á meðan þeir hefast svo mig langaði að kanna hvort það væri til smá „hraðferð“ að svipuðum snúðum án þess að það kæmi niður á gæðunum. Þessa snúða hér lét ég aðeins hefast 2 x í 45 mínútur og þeir voru algjörlega dásamlegir og ofurmjúkir svo við erum sannarlega búin að finna fljótlegri leið til þess að gera undursamlega snúða!

Kanelsnúðar með rjómaostakremi

Bleikir „Cinnabon“ kanilsnúðar

Snúðadeig

 • 670-700 g Polselli 00 hveiti
 • 1 pk. þurrger (11,8 g)
 • 120 g smjör (+ til að smyrja formið)
 • 250 ml nýmjólk
 • 100 g sykur
 • 1 tsk. salt
 • 2 egg (pískuð)
 • 2 tsk. vanilludropar
 1. Setjið hveiti og þurrger í hrærivélarskálina og blandið saman (haldið eftir hluta af hveitinu þar til í lokin).
 2. Bræðið smjörið í potti og hellið síðan mjólk, sykri og salti saman við og hrærið þar til ylvolgt.
 3. Hellið saman við hveitiblönduna og hrærið með króknum á meðan.
 4. Bætið eggjum og vanilludropum saman við og síðan restinni af hveitinu ef þurfa þykir.
 5. Egg eru misstór og því þarf mismikið hveiti. Setjið hveiti þar til deigið hnoðast vel saman en er samt frekar blautt í sér, þó ekki þannig að það festist við lófana.
 6. Náið því þá úr hrærivélinni og hnoðið saman í höndunum, penslið skál með matarolíu og veltið deiginu uppúr henni, plastið og leyfið að hefast í um 45 mínútur.
 7. Fletjið þá út á hveitistráðum fleti í um 40 x 50 cm og smyrjið kökuform/eldfast mót sem er um 25 x 35 cm að stærð vel með smjöri.

Fylling

 • 220 g púðursykur
 • 3 msk. kanill
 • 100 g smjör við stofuhita
 1. Smyrjið útflatta deigið jafnt með smjöri.
 2. Blandið saman sykri og kanil og dreifið yfir deigið.
 3. Rúllið upp frá lengri endanum, skiptið niður í 12 einingar og raðið í formið.
 4. Plastið að nýju og leyfið að hefast aftur í um 45 mínútur.
 5. Bakið þá við 180°C í um 20-25 mínútur eða þar til snúðarnir verða vel gylltir.
 6. Leyfið snúðunum að standa í um 15 mínútur áður en þið setjið kremið á þá.

Rjómaostakrem

 • 100 g rjómaostur við stofuhita
 • 60 g smjör við stofuhita
 • 200 g flórsykur
 • 1 tsk. vanilludropar
 • Salt af hnífsoddi
 • Bleikur matarlitur (sé þess óskað) og kökuskraut
 1. Þeytið saman rjómaost og smjör.
 2. Bætið flórsykri saman við í nokkrum skömmtum, skafið niður á milli.
 3. Bætið salti og vanilludropum við í lokin ásamt matarlit, sé þess óskað og smyrjið yfir volga snúðana ásamt því að strá kökuskrauti yfir.
Cinnabon kanelsnúðar með Polselli hveiti

Polselli 00 pizza hveitið fæst Melabúðinni, Stórkaup, Fjarðarkaup, Hlíðarkaup, Pétursbúð, Þín verslun Kassinn , Smáalind, Hamóna, Sandholt, Lindabakarí, Nesbrauð, Kallabakarí, Sesam brauðhús og  GK Bakarí.

Rjómaostakrem á kanelsnúða

Rjómaostakreminu má smyrja á snúðana meðan þeir eru ylvolgir, þá bráðnar það örlítið niður í þá og gerir þá enn betri.

Cinnabon kanelsnúðar

Nýbakaðir snúðar gleðja svo sannarlega í skammdeginu!

Cinnabon kanelsnúðar

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun