Súkkulaðikaka með Dumlekremi



Súkkulaðikaka með Dumlekrem

Við fjölskyldan erum á leiðinni í sameiginlegan brunch hjá vinunum okkar og við fengum það hlutverk að koma með eitthvað sætt á hlaðborðið. Guli liturinn er allsráðandi hjá mér þessa dagana svo ekki kom annað til greina en að útbúa páskalega gula köku. Þar sem við ákváðum þetta í gærkvöldi skellti ég nú bara í hana Betty vinkonu mína (já,já það má alveg stundum) og útbjó guðdómlegt Dumle karamellukrem á milli og skreytti svo með gulu smjörkremi að utan.

Súkkulaðikaka

Betty Crocker „Devils Chocolate Cake mix“ bakað samkvæmt leiðbeiningum (bæti þó alltaf 1/2 súkkulaðibúðing – duftinu, útí í lokin). Sett í 2 x 22cm form og svo hvor botn tekinn í sundur þegar hún hefur kólnað til að 4 botnar fáist. Hér getið þið að sjálfsögðu notast við þá súkkulaðiuppskrift sem ykkur þykir góð ef þið eruð ekki fyrir kökumix.

Dumle karamellukrem

  • 2 pokar Dumle karamellur (2 x 120gr)
  • 100gr smjör
  • 2 msk bökunarkakó
  • 1tsk vanilludropar
  • 3 bollar flórsykur
  • Smá rjómi (ef þarf)
  1. Bræðið karamellur og smjör saman við miðlungshita þar til vel blandað saman. Ef blandann skilur sig eða þykknar of mikið má setja smá rjóma saman við og hræra vel. 
  2. Setjið karamelluna í hrærivélarskálina og hrærið kakó og vanilludropum varlega saman við, því næst flórsykrinum, einum bolla í einu og hrærið vel á milli.
  3. Skiptið næst í 3 hluta og smyrjið á milli botnanna.

Smjörkrem (útbúið tvöfalda þessa uppskrift)

  • 125gr smjör (mjúkt)
  • 500gr flórsykur
  • 1 egg
  • 2 tsk vanilludropar
  • 2 msk sýróp
  • gulur matarlitur
  1. Setjið öll hráefnin nema flórsykur í hrærivélarskálina og hrærið vel saman.
  2. Bætið flórsykri varlega útí blönduna, skafið niður á milli og hrærið þar til kremið er slétt og fellt.
  3. Stundum þarf að bæta örlítið meira af flórsykri ef þið viljið hafa kremið stífara.
  4. Setjið gulan matarlit útí að lokum.

Að þessu sinni notaðist ég við stút nr 125 frá Wilton til að fá þetta „blúndumynstur“. Fyrst þarf að hylja alla kökuna með þunnu lagi að gulu kremi og svo sprauta mynstrinu á. Haldið breiðari endanum á stútnum þétt upp að hliðinni, byrjið neðst og zik-zakkið upp og endið á að mjókka línuna í átt að miðjunni. Það er allt í lagi að slíta stútinn frá ef þið verðið þreytt og hefja leikinn að nýju.

8 Replies to “Súkkulaðikaka með Dumlekremi”

  1. Hæhæ 🙂 takk fyrir flotta sìđu en à ađ vera e-h kakò ì smjörkreminu? Èg sè ekkert ì innihaldslýsingunni en svo stendur ì ađferđinni ađ setja allt nema flòrsykur og kakò 🙂

    1. Hæ,hæ Dísa og takk fyrir ábendinguna 🙂
      Ekkert kakó í gula smjörkreminu, hefur óvart fylgt með þar sem þetta er sama uppskrift og ég nota líka fyrir súkkulaðismjörkrem og þá er kakó 🙂

    1. Hæ,hæ – bara karamellukrem á milli og svo smjörkrem utan á, fyrst hjúpa þunnt lag og svo skreyta með stút no 125 frá wilton til að fá blúnduáferðina 😉
      Karamellukremið er vel þykkt og þykknar eftir því sem það kólnar svo reynið bara að skipta því og dreifa jafnt á milli botnanna.

    1. Ég hef verið að nota Royal eða búðingsduftið frá Flóru (það fæst í Nettó)
      Duftinu er þó einungis bætt við rétt í lokin þegar búið er að hræra deigið skv.leiðbeiningum.
      Kv.Berglind

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun