Ég var að skoða páskahugmyndir á Pinterest í gær og datt niður á þessa snilldarhugmynd. Þar var reyndar notast við „shredded wheat“ sem er auðvitað mjög líkt hreiðri/grasi en þar sem ég er algjör Rice Krispies aðdáandi hagræddi ég hugmyndinni örlítið.
Ég var ekki fyrr vöknuð í morgun áður en ég var komin niður í eldhús að taka til hráefni í þessa einföldu og frábæru páskahugmynd. Þetta tók enga stund, er rosalega gott á bragðið og ekki skemmir fyrir hvað þetta er skemmtilegt páskaskraut.
Páskahreiður
- 300gr Cardbury „Dairy Milk Chocolate“ (3 plötur)
- 50gr smjör/smjörlíki
- 6 msk sýróp
- 6 bollar Rice Krispies
- 3 pokar Cardbury „Mini eggs“ í körfurnar
Aðferð
- Spreyið bollakökuform með smá PAM spreyi (til að hreiðrin losni auðveldlega úr eftir kælingu).
- Setjið súkkulaði, smjör og sýróp í pott.
- Hitið á meðalháum hita þar til allt er bráðið og hrærið vel í allan tímann.
- Þegar blandan er kekkjalaus má taka hana af hellunni og setja Rice Krispies útí.
- Blandið öllu varlega saman við með sleif.
- Skammtið einni góðri matskeið í hvert hólf á bollakökuforminu og þrýstið með skeiðinni/fingrunum niður í miðjunni til að búa til hreiður. Hreiðrin mega vera misstór svo hér er ekki hundrað í hættunni að vera nákvæmur.
- Kælið í um klukkustund og snúið svo hreiðrunum úr forminu (á að ganga auðveldlega ef notað var matarolíusprey).
- Setjið nokkur egg í hvert hreiður og berið fram.
Ég mæli með því að þið prófið þessa uppskrift um páskana!
One Reply to “Rice Krispies Páskahreiður”