PáskabombaEftir nethangs og myndaskoðun af fallegum skreytingum datt ég inn á kökublogg með þessari hugmynd og hreinlega gat ekki setið á mér að prófa eitthvað svipað. Hugmyndin kemur frá The Cake Blog og var þetta alls ekki eins flókið og það lítur út fyrir að vera svo lengi sem þolinmæðin er við hönd. Hér hafið þið því fallega gula páskaköku sem ég mæli með þið prófið um helgina!

Páskakaka uppskrift

 • 2 x Betty Crocker kökumix
 • 100 gr suðusúkkulaði
 • 1 pk Royal súkkulaðbúðingur

Hrærið kökumixið samkvæmt leiðbeiningum á pakka og bætið bræddu suðusúkkulaðinu ásamt búðingsduftinu út í rétt í lokin og blandið varlega saman við. Bakið samkvæmt leiðbeiningum. Bakið í 4 20cm formum. Reyndar nota ég aðeins 3 botna í þessa köku svo þið getið gert 1 ½ uppskrift eða leyft fjölskyldumeðlimum að stelast í aukabotninn á meðan hann er volgur. Þegar botnarnir eru kaldir er hver um sig tekinn í tvennt með kökuskera svo þið endið með 6 x þynnri botna.

kakan

Krem á milli laga

 • 2 x Betty Crocker Coffee icing
 • 4 msk bökunarkakó
 • 1/3 pk flórsykur
 • 4-5 msk vatn

Hrærið öllu saman í hrærivélarskálinni og smyrjið á milli laga (ekki á efsta botninn samt, á hann fer gult smjörkrem).

Krem utan á köku

 • 125 gr smjör (mjúkt)
 • 500gr flórsykur
 • 1 eggjahvíta
 • 2 tsk vanilludropar
 • Gulur matarlitur
 • 4-5 msk vatn
 1. Setjið öll hráefnin nema flórsykur í hrærivélarskálina og hrærið vel saman. Blandið flórsykri saman og bætið varlega út í blönduna, skafið niður á milli og hrærið þar til kremið er slétt og fellt.
 2. Smyrjið fyrst örþunnu lagi af kremi á alla kökuna til að grunna og binda alla kökumylsnu og leyfið að “storkna”.
 3. Smyrjið næst þykkara lagi af gulu kremi yfir grunnlagið og sléttið eftir fremsta megni. Gott er að bleyta kökuspaðann í heitu vatni á milli þess sem þið sléttið kremið, með því móti verður það sléttara en ella.
 4. Kælið og útbúið á meðan Ganache og súkkulaðiskraut.

Ganache

 • 200 gr suðusúkkulaði
 • 150 ml rjómi
 • 1 tsk corn sýróp

Saxið suðusúkkulaðið. Hitið rjómann að suðu og hellið yfir súkkulaðið, leyfið að standa í um 5 mínútur. Hrærið saman blöndunni og bætið sýrópinu saman við. Gott er að taka með skeið/setja á brúsa hluta af súkkulaðiblöndunni og hella fram af brúnunum til að leki niður. Smyrjið síðan góðu lagi yfir toppinn og jafnið út.

ganache

Skraut og samsetning

 • 100 gr súkkulaðihjúpur
 • Kökuskreytingarduft/matarlitir í duftformi.
 • 2-3 pokar Cadbury‘s súkkulaðiegg

Bræðið súkkulaðihjúpinn, hellið á bökunarpappír á bakka. Dreifið úr með kökuspaða, stráið smá kökuskreytingardufti yfir áður en storkar og kælið (ég notaði gult, bleikt og smá hvítt). Brjótið svo í hæfilega stóra bita þegar storknað og stingið í kökuna, bæði á toppinn og hliðina (þegar búið er að hella Ganache á).

skraut

Smá af súkkulaðinu setti ég á kökudiskinn til að festa eggin sem þar liggja en annars megið þið setja egg í hrúgu á miðjuna á kökunni og niðri við annan kantinn.

Falleg er hún

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun