Páskaleg kaka



Páskakaka

Í dag er akkúrat mánuður í Skírdag, ég veit ekki með ykkur en mér finnast þessir fyrstu mánuðir ársins hafa þotið áfram á ljóshraða!

Páskarnir eru því handan við hornið og ekki seinna að vænna en byrja að huga að páskakökunni, er það ekki annars?

Gul kaka

Ég útbjó þessa köku á dögunum og er þetta auðvitað tilvalin dúlla til að útbúa fyrir páskana.

Botnar uppskrift

  • 1 x Betty Crocker Devils Food Cake Mix
  • 4 egg
  • 100 ml matarolía
  • 250 ml vatn
  • 3 msk bökunarkakó
  • 1 pk Royal súkkulaðibúðingur
  1. Setjið egg, olíu og vatn í hrærivélina og blandið.
  2. Bætið þá kökumixi og bökunarkakó saman við og hrærið vel, skafið niður á milli.
  3. Að lokum fer Royal búðingurinn (aðeins duftið) saman við súkkulaðiblönduna og hrært létt og skafið niður á milli.
  4. Deiginu skipt niður í þrjú 15 cm bökunarform sem búið er að spreyja vel með matarolíuspreyi.
  5. Bakið við 160°C í um 25-30 mínútur eða þar til prjónn kemur hreinn út.
  6. Kælið botnana, jafnið með kökuskera (skerið ofan af toppunum) og takið síðan hvern botn í tvennt með kökuskeranum. Þannig endið þið með sex þynnri kökubotna og þá er hægt að hefjast handa við skreytinguna.

Súkkulaðismjörkrem (á milli botna)

•    125 gr smjör (við stofuhita)
•    350 gr flórsykur
•    2 tsk vanilludropar
•    4 msk pönnukökusýróp
•    4 msk bökunarkakó

  1. Setjið öll hráefnin nema flórsykur og kakó í hrærivélarskálina og hrærið vel saman.
  2. Blandið flórsykri og kakó saman og bætið varlega útí blönduna, skafið niður á milli og hrærið þar til kremið er slétt og fellt.
  3. Smyrjið þunni lagi af kremi á milli botnanna í fimm lögum (ekki setja á efsta botninn).

Hvítt krem (til að þekja með)

•    2 x Betty Crocker Vanilla Frosting
•    200 gr flórsykur

  1. Hrærið vel saman í hrærivélarskálinni þar til hvítt og silkimjúkt.
  2. Setjið smá hluta strax í sprautupoka til að eiga fyrir stjörnuskreytingu á toppnum í lokin. Takið einnig hluta til hliðar og litið gulan (fyrir rósir á toppnum og til að draga í neðarlega á kökunni).
  3. Smyrjið örþunnu lagi yfir alla kökuna til að binda alla kökumylsnu, leyfið að standa og taka sig stutta stund. Þetta skref er mikilvægt til að koma í veg fyrir að kökumylsna sjáist í  kreminu.
  4. Smyrjið nú öðru og þykkara lagi af hvítu kremi á kökuna og reynið að hafa jafnt allan hringinn (um það bil 1/2 cm að þykkt).
  5. Setjið þá þunnt lag af gulu kremi á neðri hlutann á kökunni (þarf þó alls ekki að þekja alveg), ýmist með sprautunni eða bara með spaða.
  6. Þegar hér er komið er mikilvægt að taka spaðann sinn og bleyta örlítið (hafa rakan) og draga kremin saman til að mynda marmaraáferðina. Skafa kremið af á milli og bleyta að nýju og halda þannig áfram allan hringinn þar til þið hafið fengið það útlit sem ykkur þykir fallegt.
  7. Að lokum má skreyta toppinn með því að sprauta rósir með 2D stút frá Wilton og misstórar stjörnur ásamt því að stinga brúðarslöri hér og þar og strá smá kökuskrauti líka.
Páskakakan

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun