Páskatertan 2017Systir mín átti afmæli í gær og kom fjölskyldan saman í kvöldkaffi. Ég bauðst til að gera köku enda langaði mig að prófa eina páskaköku sem ég sá uppskrift af á síðunni Chewtown. Ég reyndar breytti um fyllingu og hlutföll í kökunni og gerði hreiðrið á annan hátt, hér fyrir neðan fáið þið mína útfærslu af þessari páskabombu.

 Kakan er skemmtilega páskaleg og krúttleg

páskakaka

Súkkulaði páskakaka með banana- og Daimrjóma uppskrift

Botnar

 • 280 gr hveiti
 • 60 gr bökunarkakó
 • 100 gr púðursykur
 • 1 tsk matarsódi
 • 1 tsk salt
 • 200 gr grísk jógúrt
 • Fræ úr einni vanillustöng
 • 4 egg
 • 300 gr brætt smjör
 1. Hitið ofninn 160°C.
 2. Setjið þurrefnin saman í skál og blandið saman.
 3. Setjið því  næst brætt smjörið, grísku jógúrtina, vanillufræin og loks eggin eitt í einu saman við þurrefnin. Blandið vel og skafið niður á milli.
 4. Skiptið niður í 2 x 20cm bökunarform sem hefur verið klætt með bökunarpappír í botninn og vel smurt á hliðunum.
 5. Bakið í um 30 mínútur eða þar til prjónn kemur út með smá kökumylsnu á (ekki blautu deigi).

Súkkulaðihreiður og egg

 • 150 gr hjúpsúkkulaði
 • 2 pk Cadbury‘s egg (180 gr)
 1. Finnið skál sem hentar sem hreiður og leggið bökunarpappír yfir hana og inn í hinumegin (mæli alveg með að gera 2 hreiður því þau eiga það til að brotna þegar tekin í sundur).
 2. Bræðið hjúpsúkkulaðið og setjið í zip lock poka og klippið lítið gat á endann.
 3. Drisslið súkkulaðinu fram og aftur yfir bökunarpappírinn og passið að setja vel alls staðar svo það sé sterkara þegar pappírinn verður losaður frá.
 4. Setjið í frysti í 15 mínútur, losið skálina úr og því næst bökunarpappírinn mjög varlega.
 5. Ekki hafa áhyggjur þó þetta brotni eitthvað því það er fínt að taka brotin og líma (m.súkkulaði) hér og þar og bæta við litlum „greinum“ utan á með því að tína upp lítil brot og líma.
 6. Leyfið að kólna á meðan ganaché er útbúið.

Fylling

 • 500 ml stífþeyttur rjómi
 • 2 x bananar skornir í bita
 • 140 gr smátt saxað Daim (ég setti það í mixerinn smá stund)
 1. Blandið öllu saman og smyrjið á milli botnanna þegar þeir hafa kólnað.

Ganaché

 • 110 gr suðusúkkulaði
 • 25 gr smjör
 1. Bræðið saman í örbylgjuofni í stuttan tíma í senn, hrærið vel á milli og þegar vel blandað má hella blöndunni á efri botninn og dreifa úr (allt í lagi þó það leki aðeins niður)
 2. Að lokum má staðsetja súkkulaðihreiðrið á toppnum (bíðið þar til ganaché hefur kólnað samt því annars bráðnar hreiðrið).

Bananar og Daim í bland við rjóma var undursamleg blanda og sérlega með þessum súkkulaðibotnum og ganaché!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun