Þessi er fyrir þá sem hafa lítinn tíma en langar að útbúa páskalega köku fyrir komandi daga!
Eldri dóttir mín skellti í þessa dásemd og verð ég að segja að Betty súkkulaðikaka hreinlega klikkar aldrei og allir kunna að meta þennan einfaldleika.
Botnar
- 1 x Betty Crocker Devils Food Cake Mix
- 1 x egg, 4 msk bökunarkakó og 1 x Royal súkkulaðibúðingur aukalega
- Blandið kökumixi saman samkvæmt leiðbeiningum á pakka nema bætið auka eggi og bökunarkakói saman við í upphafi.
- Þegar búið er að skafa niður á milli og hræra vel er dufti af einum súkkulaði Royal búðing blandað saman við og hrært rólega (varist að blanda of lengi hér).
- Spreyið 2 x 20 cm form með matarolíuspreyi og skiptið deiginu jafnt á milli.
- Bakið við 160° þar til prjónn kemur út með engu kökudeigi og kælið botnana.
Krem
Að þessu sinni gerði hún neðangreinda uppskrift af súkkulaði smjörkremi til að smyrja á milli botna, þekja kökuna og afgangurinn var settur í sprautupoka með 1 M stút.
Að auki notaði hún 1 dós af Betty Crocker Vanilla Frosting, bætti 1/2 kassa af flórsykri saman við og skipti í 4 hluta. Síðan var útbúið smá gult, bleikt og fjólublátt smjörkrem og fjórði hlutinn var áfram hvítur. Með þessu móti voru komnir 5 litir (mega að sjálfsögðu vera færri) til að sprauta stjörnur með.
Súkkulaðismjörkrem
- 125 gr smjör (mjúkt)
- 500 gr flórsykur
- 2 tsk vanilludropar
- 2 msk sýróp
- 5 msk bökunarkakó
- Nokkrar msk af volgu vatni
- Setjið öll hráefnin nema flórsykur og kakó í hrærivélarskálina og hrærið vel saman.
- Blandið flórsykri og kakó saman og bætið varlega útí blönduna, skafið niður á milli og hrærið þar til kremið er slétt og fellt.
- Bætið vatni saman við eftir hentugleika. Gott er að hafa kremið aðeins mýkra til að smyrja á milli botna og til að þekja kökuna svo gott gæti verið að setja smá auka flórsykur í afganginn og hræra saman áður en hann fer í sprautupoka.
Skreytingaraðferð
- 3 ks af Fingers (mögulega aðeins meira svo 4 ks ef þið viljið vera örugg)
- 3 pokar af Cadbury’s eggjum
- Byrjið á því að raða Fingers allan hringinn á kökunni. Hjá henni náðu þeir ekki alveg að vera jafn háir kökunni svo hún geymdi smá pláss efst og sprautaði síðan stjörnum niður á brúnina til að ná að þekja kökuna með kremi niður að kexinu.
- Takið því næst alla sprautupokana (súkkulaði og Betty kremið í bland) og sprautið stórum stjörnum með 1 M stút hér og þar á topp kökunnar. Ef þið eruð aðeins með einn 1 M stút þá er ekkert mál að klára einn lit í einu, sprauta bara stórar stjörnur hér og þar og fylla upp í með næstu litum.
- Raðið að lokum súkkulaðieggjum hér og þar á toppinnn.
Þessi kom alveg ótrúlega vel út hjá henni og tók alls ekki langan tíma að gera! Til stelpnanna komu nokkrir gestir í köku og ísköld mjólk fór að þeirra mati best með henni 🙂