SkólabolluraIMG_1260
Ég útbjó þessar bollur einn sunnudagsmorguninn í febrúar. Stelpurnar voru mjög hrifnar af þeim og höfðu þær með sér í nesti út vikuna (við settum þær í frystinn og tókum jafnóðum út).

Það er svo auðvelt að baka vel af öllu svona og eiga síðan í frystinum. Við hitum oft aðeins í ofninum aftur og þá verða þær alltaf eins og nýbakaðar og bestar eru þær með smjöri og osti.

Skólabollur uppskrift

 • 120 gr smjör
 • 3,5 dl mjólk
 • 1 pk þurrger
 • 1 dl púðursykur
 • 640 gr heilhveiti
 • ½ tsk salt
 • 2 dl Til hamingju fimm korna blanda
 • Egg til penslunar
 1. Bræðið smjör við vægan hita og hitið mjólkina út í þar til ylvolgt (passa að hita ekki of mikið til að drepa ekki gerið). Blandið þurrgerinu í volga blönduna og og leyfið að gerjast í nokkrar mínútur.
 2. Setjið öll þurrefnin saman í hrærivélarskálina og hellið mjólkurblöndunni saman við og hnoðið með króknum. Stundum þarf að bæta smá meira af heilhveiti saman við en best er að reyna að vinna deigið eins blautt og hægt er fyrir hefun því þá verður auðveldara að hnoða það í bollur.
 3. Hjúpið skál með matarolíu og veltið deiginu upp úr henni, setjið því næst rakan klút/plastfilmu yfir skálina og leyfið deiginu að hefast í um 45 mínútur.
 4. Hnoðið í bollur (c.a 20-22 stk), raðið á bökunarpappír, setjið klútinn aftur yfir og leyfið að hefast í um 30 mínútur.
 5. Hitið ofninn 220°C, penslið bollurnar með eggi og bakið í um 10 mínútur eða þar til bollurnar verða gylltar.

Tags:

2 Replies to “Skólabollur”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun