Throphy Cupcakes – NeopolitanSeattle-vinkonur mínar komu á ferðafund til mín um daginn fyrir komandi húsmæðraorlof okkar í maí. Það var auðvitað ekkert annað í stöðunni en útbúa eitthvað sem tengir okkur við þennan dásamlega stað svo úr varð að ég prófaði L O K S I N S að baka þessar bollakökur. Ég veit ekki hversu oft við mæðgur kíktum á Trophy Cupcakes í University Village og nældum okkur í eina Neopolitan Cupcake.

Tinna vinkona á bókina frá þeim og fékk ég hana lánaða til að geta útbúið þessa dásemd.

Ég get svo svarið það að þær brögðuðust nákvæmlega eins og í búðinni og þið hreinlega verðið að prófa!

Súkkulaði bollakökur

Uppskriftin gefur um 20-24 bollakökur. Ég notaðist við 1M stút frá Wilton og sprautaði fyrst hvítu smjörkremi á kökuna og því næst bleika jarðaberjasmjörkreminu. Marglitu kökuskrauti er stráð yfir og kirsuber sett á toppinn.

 • 320 gr hveiti
 • 85 gr bökunarkakó
 • 2 ½ tsk lyftiduft
 • 1 ½ tsk matarsódi
 • ¾ tsk salt
 • 3 egg
 • 300 ml bolli mjólk
 • 110 ml matarolía
 • 1 msk vanilludropar
 • 380 gr sykur
 • 200 ml sjóðandi vatn
 1. Hitið ofninn 175°C.
 2. Sigtið saman hveiti, kakó, lyftiduft, matarsóda og salt og leggið til hliðar.
 3. Blandið eggjum, mjólk, olíu og vanillu saman í hrærivélinni.
 4. Bætið þá sykrinum og öllum þurrefnunum saman við. Hrærið á lágum hraða til að byrja með en síðan á meðalhraða í um tvær mínútur eða þar til deigið er orðið slétt og fallegt.
 5. Blandið að lokum sjóðandi vatninu varlega saman við deigið með sleif þar til það verður slétt að nýju. Deigið á að vera þunnt.
 6. Leyfið deiginu að hvíla í 15 mínútur og hrærið þá aðeins upp í því að nýju.
 7. Fyllið ¾ hluta af bollakökuformunum með deigi og bakið þar til prjónn kemur út með smá kökumylsnu (ekki blautu deigi) eða í um 20 mínútur.
 8. Kælið bollakökurnar og útbúið kremið á meðan.

Vanillu- og jarðaberja smjörkrem

 • 500 gr smjör við stofuhita
 • 900 gr flórsykur (sigtaður)
 • 2 tsk vanilludropar
 • ¼ tsk salt
 • 200 gr fersk maukuð jarðaber (eða jarðaberjasulta)
 • Marglitt kökuskraut
 • Niðursoðin kirsuber með stönglum
 1. Þeytið smjörið þar til létt og ljóst.
 2. Bætið flórsykrinum saman við í litlum skömmtum og blandið á lágum hraða.
 3. Að lokum fara vanilludroparnir og saltið saman við blönduna og kremið þeytt í nokkrar mínútur þar til létt og ljóst og skafið nokkrum sinnum niður á milli.
 4. Takið rúmlega 1/3 af vanillukreminu til hliðar og setjið jarðaberjamaukið saman við tæplega 2/3 af kreminu og blandið vel.
 5. Ég notaði stút 1M frá Wilton og byrjaði á því að sprauta jarðaberjakreminu í rúman hring og síðan vanillukreminu þar ofan á. Þá er kökuskrauti stráð yfir og kirsuber sett á toppinn.

Þetta jarðaberjasmjörkrem…..namm! Ég notaði fersk, maukuð jarðaber, held það gefi enn betra bragð en sultan.

Svo er hún svo falleg að ekki skemmir það nú fyrir!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun