Hamborgarar með Chili MajónesiGrillaðir hamborgarar eru tilvalinn matur í komandi sumarveislur, svona ef sumarið lætur kannski sjá sig hér á Suðurlandinu 🙂

E. Finnsson var að setja Chili Majónes í flösku á markað og drottinn minn hvað þetta er mikil snilld! Við fjölskyldan útbjuggum hamborgara til að prófa hana og höfðum ýmislegt meðlæti með. Vöfflufranskar höfum við elskað síðan við bjuggum í USA og finnst mér frábært að geta keypt þær út í búð (þær yfirleitt alltaf til í Krónunni til dæmis) og svo vorum við að prófa að gera sultaðan rauðlauk í fyrsta skipti og hann var alveg dásamlegur í bland við þetta allt.

Hamborgarar með Chili majónesi

 • 500 gr nautahakk
 • 60 gr mulið Ritz kex
 • 1 pískað egg
 • 1 tsk Chile lime krydd
 • 1 tsk Steikarkrydd (má líka setja 2 af þessu og sleppa hinu)
 • Ostsneiðar
 • 10-15 stk sveppir
 • 3 rauðlaukar
 • 3 msk púðursykur
 • 6 msk smjör
 • 4-5 hamborgarabrauð
 • Grænmeti (hér eru kál og tómatar)
 • Vöfflufranskar
 • Beikon
 • Chili Majónes frá E. Finnsson

 1. Blandið hakki, Ritz kexi, eggi og kryddum saman í skál og blandið saman með höndunum.
 2. Þjappið hakkblöndunni í hamborgarabuff eða notið hamborgarapressu. Uppskriftin gefur 4-5 hamborgara eftir því hversu þykka þið viljið hafa þá.
 3. Gott er að plasta og kæla buffin á meðan meðlæti og annað er undirbúið.
 4. Hitið ofninn og setjið franskar á eina ofnskúffu og beikon á þá næstu (bökunarpappír undir), setjið í ofninn á meðan þið gerið annað meðlæti og grillið hamborgarana.
 5. Hvítlauksristaðir sveppir: Skerið sveppi í sneiðar og steikið upp úr smjöri, kryddið til með salti, pipar og hvítlauksdufti.
 6. Sultaður rauðlaukur: Skerið laukana í sneiðar og steikið upp úr smjöri, kryddið til með salti og pipar. Þegar hann hefur linast er púðursykrinum blandað saman við og leyft að malla við lágan hita í nokkrar mínútur.
 7. Grillið því næst borgarana og hitið brauðin (mér finnst gott að hafa þau í álpappír á efri grindinni því þá verða þau svo mjúk og góð), ekki gleyma ostinum og smá auka kryddi í lokin.
 8. Ég keypti nokkur krydd í Williams & Sonoma í Seattle um daginn og Steakhouse rub kryddið þeirra er dásamlegt á ýmislegt kjöt og svo var Chile lime kryddið líka skemmtileg tilbreyting. Hér getið þið þó að sjálfsögðu notað þau krydd sem ykkur þykja góð.
 9. Raðið þessu síðan öllu saman og njótið með Chili Majónesi.

Þessi færsla var unnin í samstarfi við Vogabæ

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun