Bökuð epli í bollaUm daginn gerði ég dásamlega blauta súkkulaðiköku í bolla og hef ég eiginlega verið að bíða eftir því að prófa fleiri bollauppskriftir en þegar maður fær endalausar hugmyndir af einhverju góðgæti er erfitt að koma öllu að. Þegar „Going on Vacation“ múmínbollinn bættist í safnið ákvað ég hins vegar að láta slag standa og prófa eina nýja uppskrift. Ég held ég setji mér það hér með sem markmið að prófa eina nýja kökuuppskrift í bolla í hvert sinn sem ég fæ mér nýjan Múmínbolla.

Hér er á ferðinni nokkurs konar eplapæ með karamelluívafi og vá hvað þetta var góð blanda!

Bökuð karamelluepli í bolla uppskrift

Eplablanda

 • 1 x stórt Jonagold epli (eða tvö minni gul/græn epli)
 • 1 msk hveiti
 • 1 tsk sítrónusafi
 • 1 msk púðursykur
 • 1 msk saxaðar pekanhnetur
 • Walkers karamellur (þessar í fjólubláu bréfunum)

„Kröst“ á toppinn

 • 50 gr brætt smjör
 • 50 gr haframjöl
 • 1 ½ msk púðursykur
 • 1 msk maple sýróp
 • 1 tsk kanill
 • ¼ tsk salt

 1. Skerið eplið niður í litla teninga (um það bil 0,5 x 0,5 cm).
 2. Blandið restinni af hráefnunum fyrir eplablönduna saman við eplabitana fyrir utan karamellurnar.
 3. Skiptið eplablöndunni niður í 3-4 bolla og fyllið þá rúmlega til hálfs, setjið þá eina til tvær karamellur ofan á og útbúið því næst „kröstið“.
 4. Setjið öll hráefnin fyrir „kröstið“ saman í skál og setjið ofan á eplablönduna og karamelluna.
 5. Bakið í örbylgjuofninum í 3- 3 ½ mínútu eða þar til blandan fer aðeins að „bubbla“.
 6. Takið þá úr ofninum, hrærið upp í blöndunni  og blandið öllu saman og leyfið aðeins að kólna (varið ykkur því bollinn er heitur).
 7. Gott er að bera bökuðu eplin fram með góðri ískúlu og smá af söxuðum pekanhnetum.

Hvað er skemmtilegra en það að bjóða upp á eplaköku í krúttlegustu bollum heims! Mig grunar líka að ansi margir Íslendingar séu að safna þessum bollum og nú er heldur betur komið nýtt notagildi fyrir þá. Bolli er sko ekki bara bolli, hann má vera kökuform líka 🙂

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun