MínútubollakakaÉg hef lengi ætlað að prófa svokallaða „Lava cake“ í örbylgjuofninum. Hef hins vegar ekki haft trú á því að hægt sé að baka köku með þessu móti svo góð sé en afsannaði þá kenningu mína klárlega í dag. Þessi kaka galdraðist fram á örfáum mínútum og er algjör snilld ef ykkur langar í eitthvað gómsætt og hafið ekki mikinn tíma. Ég útbjó uppskrift sem hentar í tvo bolla en auðvitað má helminga hana ef ykkur langar bara í einn bolla eða til dæmis tvöfalda hana ef gera á bolla fyrir fjóra.

Blaut bollakaka á mínútu

Þessi uppskrift gefur tvo bolla af dásamlegri blautri súkkulaðiköku

 • 60 gr smjör
 • 80 gr suðusúkkulaði
 • 40 gr sykur
 • 1 egg
 • 40 ml mjólk
 • 40 gr hveiti
 1. Bræðið saman smjör og suðusúkkulaði í litlum skaftpotti eða í örbylgjuofni.
 2. Hrærið sykurinn og eggið saman við með písk eða gaffli þar til vel blandað.
 3. Því næst fer mjólkin saman við og að lokum hveitið, hrærið vel þar til kekkjalaust.
 4. Spreyið tvo bolla með matarolíuspreyi, skiptið deiginu niður og hitið einn bolla í einu í örbylgjuofninum á hæstu stillingu í 1 mínútu og 10 sekúndur.

Ég prófaði nokkrar tilraunir með mismunandi tíma og kökur sem voru 1 mín og 20-30 sek voru líka dásamlegar, mér fannst bara gott að hafa þessa í blautari kantinum. Örbylgjuofnar eru þó misjafnir í styrk svo prófið endilega einn bolla og aukið eða minnkið tímann með seinni bollann ef þið viljið meira eða minna bakaða köku. Kælið kökuna í um 5 mínútur og berið fram með ískúlu og heitri karamellusósu (sjá uppskrift hér að neðan).

Kakan lyftir sér alveg upp á brúnina á bollanum og sígur síðan aðeins aftur þegar hún er tekin úr örbylgjuofninum og skilur þannig akkúrat eftir pláss fyrir eina góða ískúlu og karamellusósu.

Litlu krúttlegu múmínbollarnir mínir fengu semsagt nýtt hlutverk í dag og grunar mig að ég eigi eftir að prófa að baka í þeim aftur síðar. Ég er nefnilega viss um að allt bragðast betur í fallegum bolla!

Karamellusósa

 • 2 karamellur með sjávarsalti frá Konnerup & Co
 • 2 tsk rjómi
 1. Hitið karamellur og rjóma saman í potti við meðalháan hita þar til þykk sósa hefur myndast, bætið örlítið meira af rjóma saman við ef þið viljið þynnri sósu.

Ég hreinlega get ekki mælt nægilega vel með þessum dásamlegu karamellum, þær eru svoooooooo mjúkar og bragðgóðar að ég hef ekki kynnst öðru eins! Ég fékk þær að gjöf en komst að því þær fást í versluninni BAST í Kringlunni og vonandi bráðum í einhverri verslun hér í Mosfellsbænum svo ég þurfi ekki að fara alla leið í Kringluna til að endurnýja birgðirnar 🙂

2 Replies to “Mínútubollakaka”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun