Jarðaberja sorbetÉg hef lengi ætlað að prófa að gera heimatilbúinn ís og þegar ég fékk ísgerðarvélina frá Kitchen Aid í gjöf á dögunum var ekki í boði annað en að prófa hana og það strax! Þar sem það kom sumar í einn dag í síðustu viku ákvað ég að byrja á því að útbúa sorbet ís sem er einmitt svo sumarlegur og frískandi á bragðið.

Ég nældi mér í fersk jarðaber frá Dalsgarði í Mosfellsdal en það eru án þess að ég ýki, heimsins bestu jarðaber! Ég þarf að kaupa nokkur box hverju sinni þar sem stelpurnar mínar eru búnar með 1-2 áður en ég kemst út afleggjarann hjá þeim 🙂

Ég fór síðan á stúfana að skoða uppskriftir og fann eina mjög girnilega uppskrift af jarðaberjasorbet hjá Valentinu á Real Italian Kitchen en þar er hún að gefa upp leyniuppskrift sem móðir hennar útbýr fyrir veitingastaðinn sinn og nú kemur hún hér fyrir ykkur.

Athugið að mikilvægt er að hafa geymt ísgerðarvélina í frysti í að minnsta kosti 15 klukkustundir áður en þið farið að útbúa ís.

Jarðaberjasorbet uppskrift

 • 200 ml vatn
 • 250 gr jarðaber
 • 150 gr sykur
 • Safi úr einni sítrónu
 • Safi úr einni appelsínu
 • 1 x eggjahvíta
 1. Setjið vatn, jarðaber og safann bæði úr sítrónunni og appelsínunni í mixer/notið töfrasprota og blandið vel.
 2. Bætið þá sykrinum saman við og þeytið aðeins að nýju, leyfið blöndunni þá að kólna í ísskáp í um eina klukkustund.
 3. Takið Kitchen Aid ísskálina úr frystinum og festið á hrærivélina. Kveikið á stillingu 4 áður en þið byrjið að hella blöndunni í skálina því annars gæti hún frosið við kantana.
 4. Hellið jarðaberjablöndunni saman við og hrærið í um 18 mínútur. Bætið þá þeyttri eggjahvítunni saman við með sleif og hrærið áfram í 4-8 mínútur í viðbót eða þar til blandan er við það að fara upp úr skálinni.
 5. Blandan er dásamleg beint upp úr skálinni en til þess að geta gert kúlur með ísskeið þarf að setja hana í plastbox og frysta í að minnsta kosti 4 klukkustundir.

Fyrst er blandan hálfgert mauk en eftir því sem mínúturnar líða þykknar hún upp.

Eftir að eggjahvítunni hefur verið blandað saman við fara hlutirnir síðan að gerast og passa þarf að hætta að hræra áður en blandan sullast upp úr ísskálinni 🙂

Jammí, hversu girnilegur er þessi sorbet! Það má að sjálfsögðu borða hann beint upp úr skálinni og er hann dásamlega mjúkur og góður þannig. Ef þið náið hins vegar ekki að klára hann eða viljið geyma þar til síðar eða móta úr honum kúlur er gott að setja hann í þétt plastsbox og geyma í frystinum. Til þess að útbúa ískúlur þarf til dæmis að frysta hann í að minnsta kosti 4 klukkustundir.

Hægt er að kaupa ísgerðarvélina í Rafland og þar er einnig að finna ýmsa aðra aukahluti fyrir Kitchen Aid hrærivélar.

aísskál

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Rafland og Kitchen Aid á Íslandi

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun