Ofureinfaldur rjómaís



⌑ Samstarf ⌑

Ég er búin að eiga ísgerðarskál frá Kitchen Aid í nokkurn tíma og skil ekki af hverju ég nota hana ekki oftar. Eftir þessa tilraun er hún hins vegar komin í poka í frystinum til þess að hún sé til taks næst þegar íslöngunin hellist yfir. Það er nefnilega svo miklu einfaldara að útbúa dýrindis ís í svona vél en þið haldið. Með því að nota ísgerðarskálina verður ísinn dúnmjúkur með silkiáferð.

Ofureinfaldur heimagerður rjómaís uppskrift

  • 600 ml rjómi
  • 100 ml nýmjólk
  • 150 g sykur
  • 2 msk sýróp
  • Fræ úr einni vanillustöng
  • 1 tsk vanilludropar
  • ¼ tsk salt
  • 100 g af því súkkulaði/nammi sem ykkur þykir gott
  1. Setjið öll hráefnin saman í stóra könnu/skál og pískið saman svolitla stund.
  2. Setjið í kæli í um klukkustund og pískið þá upp aftur.
  3. Ísgerðarskálin þarf að vera búin að vera í frysti í að minnsta kosti 15 klukkustundir og yfir hátíðarnar er alls ekki svo vitlaust að geyma hana bara í frystinum í poka (svo hún verði ekki skítug) því þá er hún alltaf tilbúin þegar íslöngunin hellist yfir.
  4. Setjið ísgerðarskálina á hrærivélina og festið spaðann.
  5. Setjið spaðann í gang á lægstu stillingu og hellið rjómablöndunni varlega út í (mikilvægt er að hafa vélina í gangi þegar blöndunni er hellt í, annars frýs hún við kantana og ekki verður hægt að kveikja á spaðanum).
  6. Hrærið í 20-25 mínútur eða þar til ísinn er farinn að losna frá hliðunum og þykkna vel. Þegar ísinn er tilbúinn er áferðin í líkingu við ís úr vél.
  7. Þegar réttri þykkt er náð má bæta einhverju góðgæti út í ísinn á lokametrunum. Gott er að saxa 100 g af því súkkulaði sem ykkur þykir gott og blanda því saman við rétt í lokin í nokkrar sekúndur. Til dæmis fer lakkrís súkkulaði, Toblerone, suðusúkkulaði, saxað Smarties eða mulið Oreo kex vel með ísnum.
  8. Hægt er að bera ísinn fram beint úr vélinni en ef þið viljið fá hann þéttari til að útbúa kúlur þarf að frysta hann í nokkrar klukkustundir. Best er að geyma ísinn í vel þéttu boxi í frystinum.

Setjið spaðann í gang á lægstu stillingu og hellið blöndunni rólega út í skálina, hrærið í um 20-25 mínútur.

Eftir þann tíma ætti ísinn að líta svona út.

Dásamlega mjúkur og fallegur, minnir helst á rjómaís úr vél líkt og í ísbúðunum.

Hægt er að setja nánast hvað sem er út í ísinn, allt frá nammi að ávöxtum eða sósum. Gott er að bæta því við alveg í lokin og hræra örstutt, jafnvel losa skálina af hrærivélinni og blanda því saman við með sleif.

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Rafland og Kitchen Aid á Íslandi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun