Um daginn fékk ég svo ótrúlega dúlleg lítil „tart“ form og er búin að bíða eftir tækifæri til þess að prófa þau. Það er ýmislegt sem er hægt að útbúa í þessum formum en ég ákvað að prófa sítrónu- og jarðaberja „tart“ sem fyrstu tilraun. Þessi blanda kom ótrúlega vel út og vinkonur dóttur minnar sem voru hér í heimsókn voru alveg sammála!

Fyrst hakkaði ég pistasíur í matvinnsluvélinni og bætti hveiti, flórsykri og smjöri síðan saman við til að búa til þéttan massa sem var þjappað í smurð formin.

Það er laus botn í formunum svo það er auðvelt að ná „skálinni“ upp úr þegar hún hefur kólnað.

Litlar sítrónu- og jarðaberja „tart“
Botnar uppskrift
- 40 g pistasíur
- 160 g hveiti
- 50 g flórsykur
- 100 g smjör
- Hitið ofninn í 175°C.
- Smyrjið lítil „tart“ form með lausum botni með smjöri (blandan dugar í um 15 stk).
- Setjið pistasíur í matvinnsluvél þar til þær verða mjög fínt saxaðar (nánast mjöl), bætið þá hveiti og flórsykri saman við og loks smjöri í nokkrum skömmtum (best að skera í teninga og setja nokkra í einu).
- Blandið saman þar til blandan er þétt og auðvelt að þrýsta henni í formin.
- Skiptið deiginu niður í formin, þrýstið þétt og vel upp hliðarnar og bakið í 15-20 mínútur eða þar til deigið verður vel gyllt.
- Kælið, takið úr forminu og fyllið með sítrónublöndu.

Sítrónublanda uppskrift
- 230 g rjómaostur við stofuhita
- 2 tsk rifinn sítrónubörkur
- 1 msk sítrónusafi
- 80 g sykur
- 200 ml þeyttur rjómi
- 250 g jarðaber og 1 msk sykur til skrauts
- Þeytið rjómaostinn þar til hann verður léttur í sér, blandið þá sítrónuberki og sítrónusafa saman við.
- Bætið sykri saman við rjómaostablönduna, þeytið vel og skafið nokkrum sinnum niður á milli.
- Vefjið þeytta rjómanum saman við og sprautið vel af blöndu í hverja „tart“ skál.
- Kælið í að minnsta kosti 3 klst (yfir nótt í fínu)
- Skerið jarðaberin niður í teninga og veltið upp úr 1 msk af sykri, setjið vel af jarðaberjum á hvert „tart“.

Ég hef ekki mikið náð að nota nýju fallegu hrærivélina þar sem ég skaust í frí um leið og hún kom í hús. Ég get ekki hætt að dáðst að henni þar sem hún er svo undurfalleg og síðan er hún með stillingu sem aðrar vélar sem ég hef átt höfðu ekki sem heitir „stir“. Þessi stilling er frábær þar sem vélin rétt lullar af stað og síðan er hún svo hljóðlát líka þegar krafturinn er aukinn. Það virðast enn einhver eintök vera eftir inn á heimasíðu Raflands og ég mæli með að þið tryggið ykkur eintak áður en þær seljast upp.

Færslan er unnin í samstarfi við Rafland og Kitchen Aid á Íslandi