Pönnukökur með leynihráefni⌑ Samstarf ⌑

Ég hef gert pönnukökurnar hennar ömmu í áraraðir en hef alltaf gaman af því að prófa eitthvað nýtt svo ég ákvað að prófa nýja pönnukökuuppskrift í þetta skiptið. Ég hef aldrei tekið svona langt frí frá blogginu en ég skellti í nokkrar framvirkar færslur áður en haldið var í langþráð jólafrí yfir hafið og hugsaði svo ekki um heimilisstörf né eldamennsku í heilan mánuð! Ég var því orðin ansi spennt að komast aftur í eldhúsið.

Pönnukökur með sultu og rjóma

Þessar pönnukökur útbjó ég daginn eftir að við komum heim frá Asíu um miðjan janúar. Okkur langaði öll í eitthvað íslenskt og gott og urðu pönnukökur fyrir valinu með kaffinu, hamborgarhryggur með öllu tilheyrandi um kvöldið ásamt síðbúnu jólapakkastússi og að lokum fórum við örþreytt í ísbúðina. Eftir þetta vorum við síðan alveg til í að skella okkur bara aftur til Asíu enda var þar dásamlegt að vera.

Pönnukökur með majónesi

Þegar ég var yngri vildi ég bara upprúllaðar pönnsur með sykri og nóg af honum. Í dag finnst mér hins vegar best að hafa sultu og rjóma, já og ogguponsu sykur líka!

Hér kemur uppskrift af pönnsum með majónesi sem leynihráefni. Ég byrjaði að prófa að nota majónes í bakstur fyrir nokkrum mánuðum þegar ég byrjaði í samstarfi með Vogabæ og það er alveg magnað hvað það er mikið til að uppskriftum sem innihalda majónes og það gerir margar uppskriftir enn meira djúsí og betri en annars!

Pönnukökur með majónesi uppskrift

 • 220 g hveiti
 • 40 g sykur
 • 1 tsk salt
 • ½ tsk matarsódi
 • ½ tsk lyftiduft
 • U.þ.b 600 ml mjólk
 • 3 egg
 • 5 msk majónes frá E. Finnsson
 • 4 tsk vanilludropar
 • 80 g brætt smjör
 1. Setjið þurrefnin í hrærivélarskálina og blandið um 200 ml af mjólkinni saman við þar til þykkt deig hefur myndast.
 2. Bætið þá eggjum, majónesi, vanilludropum og bræddu smjöri saman við og hrærið vel.
 3. Að lokum fer restin af mjólkinni saman við en hér þarf þó að meta hversu þykkt þið viljið hafa deigið. Gott er að prófa að baka eina pönnuköku og þynna deigið sé það of þykkt.
 4. Steikið á pönnukökupönnu við meðalháan hita og berið fram með sultu, rjóma, sykri, súkkulaði eða öðru gómsætu sem ykkur dettur í hug.

Tags: -

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun