
Kókoskúlur hafa verið búnar til á þessu heimili svo árum skiptir og er nú þegar að finna nokkrar slíkar uppskriftir hér á síðunni. Stelpurnar vilja oft fá að búa þetta til og í síðustu viku vildu vinkonurnar Elín og Elín endilega gera kúlur. Við útbjuggum því enn eina uppskriftina á grunni þeirra gömlu og síðan gerðu þær sitthvora uppskriftina. Þeim fannst þetta ekkert leiðinlegt og þar sem önnur þeirra er með glúteinóþol skiptum við haframjölinu í hennar uppskrift út fyrir glúteinlaust haframjöl.

Ég er búin að komast að því að það er minna mál en maður heldur að útbúa glúteinlausan mat og algjör óþarfi að láta það hræða sig þó einhver í kringum mann sé með óþol eða ofnæmi fyrir glúteini. Um daginn langaði þeim að baka skúffuköku og þá gerðum við einmitt eina hefðbundna Betty og aðra glúteinlausa því það eru til sérstök glúteinlaus kökumix frá Betty Crocker sem eru mjög góð. Síðan útbjuggum við dásamlegt súkkulaði- og kaffi smjörkrem og notuðum á báðar kökurnar og dömurnar skreyttu að vild…..já og síðan áttu þær köku alla vikuna eftir skóla, haha!

Þær skírðu þessar fallegu kúlur partýkúlur þar sem þeim var velt upp úr kökuskrauti í stað kókosmjöls og er þetta auðvitað frábær hugmynd fyrir næstu veislu, hægt að rúlla þeim upp úr kökuskrauti í stíl við aðrar skreytingar, gera bleikar, gular, bláar, hvítar eða hvað sem er.

Partýkúlur
- 180 g smjör við stofuhita
- 50 g púðursykur
- 50 g flórsykur
- 2 tsk vanilludropar
- 3 msk bökunarkakó
- 150 g Til hamingju haframjöl
- 30 g Til hamingju kókosmjöl
- Kökuskraut
- Blandið öllum hráefnum saman í skál og hnoðið smjörinu vel saman við önnur hráefni.
- Mótið litlar kúlur og raðið á bakka.
- Rúllið að lokum kúlunum upp úr kökuskrauti, flytjið yfir á nýjan disk/bakka og kælið.
