Það var kortér í jól og stelpunum langaði að baka. Þegar þær stungu upp á því að gera kókoskúlur fannst mér sú hugmynd frábær þar sem það er fljótlegt, einfalt og gott og tíminn var af skornum skammti. Við fórum á netið og skoðuðum nokkar uppskriftir og enduðum á að sjá svo fallegar súkkulaðikúlur á heimasíðunni Passion for Baking og ákváðum því að fara þá leiðina í þetta skiptið enda eru sænskar súkkulaðikúlur mjög líkar kókoskúlum hvað uppskrift varðar. Það er hins vegar sýróp í þeim og svo fengum við þá hugmynd líka af síðunni að dýfa þeim í annað en bara kókosmjöl.
Sænskar súkkulaðikúlur uppskrift
- 260 gr haframjöl
- 200 gr smjör (við stofuhita)
- 40 gr sykur
- 40 gr púðursykur
- 60 gr bökunarkakó
- 150 gr kornsýróp (ljóst)
- 1 msk sterkt kaffi
- 2 tsk vanillusykur
- Kókosmjöl og sykurskraut til að velta upp úr
- Þeytið saman smjör, báðar tegundir af sykri og sýróp þar til létt og ljóst.
- Setjið allt annað saman við og blandið rólega saman þar til jafnt og þétt.
- Rúllið í litlar kúlur, veltið upp úr kókosmjöli, súkkulaðiflögum eða hvítum sykurperlum.
- Raðið á bakka og kælið þar til stífnar.