Blaut súkkulaðikaka – Litla syndin ljúfaÞessa dásemd er undravert að  ég hafi ekki sett hingað á síðuna. Þetta er líklega sá eftirréttur sem ég hef útbúið hvað lengst. Man eftir því þegar ég keypti þessi litlu hitaþolnu form þegar við maðurinn minn vorum nýfarin að búa…..og það er nú alveg þónokkuð síðan þá!

Það er svo fyndið stundum að eitthvað sem ég er búin að útbúa í áraraðir gleymist þegar kemur að blogginu. Maður er greinilega of upptekinn við að reyna að finna upp á einhverju nýju og skemmtilegu að það gamla og góða gleymist.

Þessi kaka má þó alls ekki gleymast og er klárlega með betri eftirréttum sem hægt er að hugsa sér!

Hér kemur uppskriftin sem ég man ekki einu sinni hvar ég fann á sínum tíma (er alltaf útprentuð í uppskriftarskúffunni minni með smá dassi af súkkulaðislettum). Þessa uppskrift er reyndar að finna víða sé ég þegar veraldarvefurinn er skoðaður. Hindberjasósunni bætti ég reyndar við en einnig er kakan góð með ferskum jarðaberjum eða öðrum ferskum berjum.

Súkkulaðikaka uppskrift

 • 140 gr smjör
 • 140 gr suðusúkkulaði
 • 2 egg
 • 3 eggjarauður
 • 140 gr flórsykur
 • 5 msk kakó
 • 60 gr hveiti
 1. Bræðið saman smjör og súkkulaði.
 2. Þeytið saman egg og eggjarauður og sáldrið flórsykrinum út í og þeytið áfram.
 3. Blandið kakó og hveiti varlega saman við blönduna.
 4. Smyrjið 6-8 lítil form vel með smjöri og skiptið blöndunni niður. Ekki fylla alveg upp í topp svo kakan fari ekki upp fyrir brúnina þegar hún bakast.
 5. Bakið við 220°C (ekki með blæstri) í um 11 mínútur (passið að baka alls ekki of lengi því þá verður miðjan ekki blaut. Gott að prófa að baka eina köku áður en hinar fara inn til að vita hvort stytta/lengja þurfi bökunartímann um smá stund til eða frá).
 6. Berið fram með ís, þeyttum rjóma og hindberjasósu.

Hindberjasósa

 • 1 bolli frosin hindber (mega líka vera fersk)
 • 3 msk sykur
 1. Sjóðið saman í potti við vægan hita í um 7 mínútur
 2. Setjið blönduna í gegnum sigti og þá ættuð þið að hafa um 1 dl af hindberjasósu.
 3. Kælið og leyfið smá hindberjasósu að leka yfir ísinn við hverja köku.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun