Brómberja og marzipan ískaka



Mig langaði að prófa mig frekar áfram í ísgerð og gerði þessa ísköku sem „seinni eftirrétt“ á aðfangadag eftir að sælgætisísinn heppnaðist svo vel um daginn. Þessi kaka var ferskari og mikið sem það passaði vel að brytja marzipanstykkin út í.

Brómberja og marsipan ís uppskrift

  • 6 egg aðskilin
  • 130gr sykur
  • Fræ úr einni vanillustöng
  • ½ l þeyttur rjómi
  • 100 gr saxað Toblerone
  • 200 gr Anthon Berg marzipan stykki (5 x 40gr) skorin í litla bita + 1-2 stk til skrauts
  • 250 gr maukuð brómber + meira til skrauts
  • 50 gr suðusúkkulaði til skrauts

Brómberja og marsipan ís

  1. Þeytið saman eggjarauður og sykur þar til létt og ljóst.
  2. Bætið vanillunni út í og blandið vel.
  3. Vefjið þeytta rjómanum því næst varlega saman við eggjarauðublönduna.
  4. Setjið saxað Toblerone og marzipanbitana saman við.
  5. Stífþeyttum eggjahvítum því næst vafið vel saman við með sleikju.
  6. Að lokum er maukuðum berjum blandað út í, varist að blanda of vel, fallegt að hafa marmaraáferð á berjablöndunni í ísnum.
  7. Öllu hellt smelluform um 22 cm í þvermál.
  8. Plastið ísinn vel og frystið helst í sólarhring og berið síðan fram með þeyttum rjóma og brómberjasósu.
  9. Skreytið með bræddu suðusúkkulaði, berjum og niðurskornu marzipanstykki.

Brómberjasósa

  • 150 ml vatn
  • 150 gr sykur
  • 125 gr brómber
  • Smá sítrónusafi
  1. Setjið vatn, sykur og brómber saman í pott og sjóðið við vægan hita í um 10 mínútur og kremjið berin vel.
  2. Sigtið þá berin frá, setjið smá sítrónusafa saman við og kælið. Sósan þykknar örlítið við að kólna og berið hana fram með ísnum ásamt þeyttum rjóma.

Í jólagjöf fékk ég síðan ísgerðarskál á hrærivélina mína svo það mun ekki líða á löngu áður en ég prófa enn eina ístegundina með þeirri aðferð. Stundum finnst mér ísinn kristallast aðeins við hefðbundnu aðferðina svo það verður spennandi að prófa að gera hann í ísgerðarskálinni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun