
Kalkúnn með öllu tilheyrandi er ein af okkar uppáhalds máltíðum, sérlega eftir að við bjuggum í Bandaríkjunum og lærðum að útbúa alls konar undursamlegt meðlæti með þessari máltíð að hætti heimamanna. Úti elduðum við alltaf kalkún á þakkargjörðarhátíðinni eða „Thanksgiving“ en eftir að við komum heim hefur hann ýmist verið eldaður þá eða yfir jólahátíðinar. Mamma og pabbi voru alltaf með kalkún á Gamlárskvöld og höfum við oftar en ekki verið með slíkt á boðstólnum þá enda hentar kalkúnn vel á slíku kvöldi.

Þetta er án efa ein besta máltíð ársins hjá okkur og eru allir yfir sig spenntir þegar kalkúnahátíð stendur til! Við erum vön að djúpsteikja kalkúninn í heilu lagi en þar sem slíkir djúpsteikingapottar fást ekki hérlendis kemur hér skotheld uppskrift af kalkún sem er eldaður heill í ofni og síðan fáið þið smá upplýsingar um þann djúpsteikta líka.

Við pöntum alltaf kalkún hjá Reykjabúinu hér í Mosfellsbæ og ýmist er hægt að fá hann frosinn eða ferskan. Ef ykkur vantar stóran fugl er gott að vera tímanlega í að panta þar sem úrvalið er misjafnt. Oftar en ekki erum við með tvo kalkúna í kringum 6 kg hvorn þegar kalkúnahátíð er haldin í Laxatungunni, enda oftar en ekki 15-20 manns í mat og síðan elskum við að eiga afgang daginn eftir. Fyrir þá sem eru með tvo ofna eins og ég mæli ég alveg eins með því að vera með tvo minni í stað þess að elda einn risastóran þó svo það sé auðvitað mjög skemmtilegt líka.

Þau Jón og Kristín (eða Nonni og Stína) framleiða gæðavörur og er ýmislegt annað en heilan kalkún að finna í Heimaverslun þeirra.

Ég mæli heilshugar með því að allir sem hafa í hyggju að hafa kalkún yfir hátíðirnar fái sér rúnt í Mosfellsbæinn og næli sér í dásamlegan kalkún hjá þeim hjónum. Við höfum alltaf fengið safaríka og góða fugla hjá þeim og það er engin hætta á því að þið endið með kalkún A la Griswold fjölskyldan í Christmas Vacation, en sú mynd er auðvitað skylduáhorf fyrir hver einustu jól!

Snúum okkur þá að máli málanna, uppskriftunum sjálfum!
Hátíðarkalkúnn með öllu tilheyrandi
Fyrir um 8-10 manns

Kalkúnn uppskrift
- Heill kalkúnn um 5-6 kg
- 150 g smjör við stofuhita
- 2 msk. ferskt rósmarín
- 1 msk. ferskt timian
- 1 msk. fersk steinselja
- 2 hvítlauksgeirar
- Salt og pipar eftir smekk
- Kjúklingakrydd
Í steikarpottinn/fatið
- 250 ml kjúklingasoð
- 4 meðalstórar gulrætur
- 1 stk. laukur
- 4 stk. rósmaríngreinar
- 2 stk. sítróna

- Skolið og þerrið kalkúninn vel og hitið ofninn í 220°C.
- Saxið kryddjurtirnar og rífið/pressið hvítlauk. Stappið saman með smjörinu og kryddið til með salti og pipar.
- Setjið vel af kryddsmjöri undir skinnið á kalkúninum við bringurnar (passið bara að rífa það ekki) og makið restinni á hann allan að utanverðu.
- Stráið þessu til viðbótar góðu kjúklingakryddi (t.d Bezt á kjúklinginn) yfir allan kalkúninn.
- Skerið gulrætur, lauk og sítrónu niður í grófa bita og raðið í botninn á steikarfati eða djúpri ofnskúffu ásamt rósmaríninu (geymið smá af þessu öllu til að stinga inn í kalkúninn).
- Hellið kjúklingasoðinu yfir grænmetið og komið kalkúninum vel fyrir. Troðið vængjunum undir hann svo þeir ofeldist ekki og setjið krydd og góða lúku af grænmeti og rósmarín inn í fuglinn til að gefa honum meiri raka og bragð við eldun.
- Setjið kalkúninn í 220° heitan ofninn í um 10 mínútur og lækkið þá hitann niður í 160 gráður.
- Gott er að miða við um 30 mínútur í eldun á hvert kíló á þessum tímapunkti en gott er að notast við kjöthitamæli og taka kalkúninn út úr ofninum við 68-70° (best að mæla milli upplæris og bringu), leggja yfir hann álpappír og leyfa honum að hvíla í um 30 mínútur áður en hann er skorinn (hann eldast þá aðeins áfram sem er í fínu lagi). Geymið dásamlega soðið fyrir sósuna!
- Mikilvægt er að taka kalkúninn út á um 30 mínútna fresti og vökva hann vel með soðinu úr pottinum.
- Ég var með kalkún upp á 5,7 kg og hann var í ofninum í rúmar 2,5 klst eftir að ég lækkaði hitann, hvíldi í 30 mínútur og var alveg fullkominn.

Kröstið sem er sett ofan á!!! Namm……

Sætkartöflumús uppskrift
- 5 stk. sætar kartöflur
- ½ tsk. salt
- 3 msk. smjör við stofuhita
- 2 egg (pískuð)
- 1 tsk. vanilludropar
- ½ tsk. kanill
- 100 g sykur
- 2 msk. rjómi
Kröst ofan á
- 60 g hveiti
- 60 g smjör við stofuhita
- 40 g púðursykur
- 20 g hvítur sykur
- 50 g saxaðar pekanhnetur
- Skrælið kartöflurnar og skerið í nokkra bita, sjóðið þar til bitarnir mýkjast.
- Setjið kartöflubitana í hrærivélarskál ásamt öllum öðrum hráefnum og blandið saman og hellið í eldfast mót.
- Útbúið kröstið með því að hræra saman öllum hráefnunum nema pekanhnetum. Stráið deiginu jafnt yfir kartöflumúsina og einnig pekanhnetunum.
- Bakið í ofni við 180°C í um 20 mínútur eða þar til kröstið fer aðeins að gyllast.

Kalkúnafylling uppskrift
- 50 g sveskjur
- 3 msk.smjör
- 1 x laukur
- 3 hvítlauksrif
- 2 gul epli (gul)
- 250 g gulrætur
- 6 sneiðar af grófu brauði
- 50 g pekanhnetur
- 300 ml kjúklingasoð
- 1 tsk. salvía
- ½ tsk. oregano
- Salt og pipar eftir smekk
- Leggið sveskjurnar í bleyti í kalt vatn á meðan þið undirbúið annað.
Saxið laukinn.
Rífið/pressið hvítlauksrifin.
Afhýðið eplin og skerið í teninga.
Afhýðið gulrætur og rífið niður með grófu rifjárni.
Skerið skorpuna af brauðinu og skerið það næst í litla teninga.
Saxið niður pekanhneturnar - Steikið laukinn upp úr smjöri þar til hann mýkist, bætið þá hvítlauknum á pönnuna ásamt eplunum og steikið stutta stund til viðbótar.
- Saxið nú sveskjurnar smátt niður og bætið restinni af hráefnunum út í pottinn/pönnuna og hrærið vel saman, smakkið til með salti og pipar.
- Hægt er að setja þessa fyllingu inn í kalkúninn en þá þarf að kæla hana fyrst. Ég hins vegar vill aldrei setja fyllingu í kalkúninn sjálfan heldur ber hana svona fram sem meðlæti.

Trönuberjasulta uppskrift
- 250 ml vatn
- 240 g sykur
- 340 g fersk trönuber (einn poki)
- 1 appelsína (safinn)
- 1 epli (skorið smátt niður)
- 1 pera (skorin smátt niður)
- 100 g þurrkaðir ávextir (saxaðir smátt)
- 60 g saxaðar pekanhnetur
- ½ tsk. salt
- 1 tsk. kanill
- ½ tsk. negull
- Sjóðið vatn og sykur saman í potti þar til sykurinn er uppleystur.
- Bætið þá öllum öðrum hráefnum í pottinn, hrærið vel saman og lækkið hitann niður.
- Setjið lokið á og leyfið að malla í 50 mínútur.
- Mér finnst gott að taka kartöflustöppu og stappa reglulega í pottinum til að fá jafnari áferð en það er valkvætt.
- Gott er að leyfa sultunni að ná stofuhita áður en hún er borin fram en hana má einnig gera með fyrirvara og geyma í loftþéttum umbúðum í kæli og bera fram kalda.

Kalkúnasósa með sveppum uppskrift
- 350 g portobellosveppir
- 30 g smjör
- 600 ml rjómi
- 1 msk.púðursykur
- 1 tsk. soyasósa
- Soðið úr kalkúnapottinum (sigta allt gumsið frá)
- 3 msk. rauðvín
- Salt, pipar, hvítlauksduft, cheyenne pipar og kjötkraftur eftir smekk
- Skerið sveppina niður og steikið við meðalháan hita í smjörinu þar til þeir mýkjast og safinn gufar upp.
- Hellið þá rjóma, sykri og soya saman við og leyfið að malla, kryddið til með salti, pipar, hvítlauksdufti og smá cheyenne pipar ásamt kjötkrafti.
- Þegar kalkúnninn kemur úr ofninum til að hvíla má sigta soðið úr pottinum og hella því út í sósuna, auka aðeins hitann og hræra vel upp í henni að nýju og leyfa síðan að malla og krydda til áfram.
- Rauðvínið má fara út í á þessum tímapunkti en það má líka sleppa því fyrir þá sem það kjósa.

Salat
- 1 poki salatblanda
- ½ granatepli
- 1 x lítil krukka fetaostur

Djúpsteiktur kalkúnn – aðferð
Lögur til að sprauta í kalkún (það má að sjálfsögðu líka sprauta þessu í kalkúninn sem fer í ofninn fyrir utan allt hitt sem fylgir þeirri aðferð, hann verður bara enn meira djúsí og góður fyrir vikið svo endilega prófið það)
- 150 ml kjúklingasoð
- 20 g smjör
- 1 msk. sítrónusafi
- ½ tsk. hvítlauksduft
- ½ tsk. pipar
- Salt eftir smekk
- Bræðið smjörið í potti og setjið allt annað saman við.
- Saltið eftir smekk og smakkið til, leyfið blöndunni að ná stofuhita.
- Notið sérstaka sprautu fyrir kjöt (með gati á hliðunum)og stingið hér og þar í kalkúninn og fyllið hann með smjörblöndu.
- Gott er að byrja á þessu kvöldinu áður, nota um helming blöndunnar þá og síðan sprauta aftur í hann daginn eftir áður en hann er eldaður.
- Kalkúnninn þarf að vera við stofuhita áður en honum er dýft í djúpsteikingarpottinn.
- Olían er hituð í 150-170°C og kalkúnninn eldaður í 6-7 mínútur fyrir hvert kíló. Þá er hann tekinn upp úr og leyft að standa í um 30 mínútur áður en hann er skorinn.

Svona lítur hann út á leiðinni í pottinn, alveg allsber því ef hann væri kryddaður að utanverðu yrði skinnið bara svart við steikinguna, þessvegna er hann sprautaður með kryddsmjöri.

Svo eftir rúman hálftíma er þessi elska tilbúin og lítur svona út!

Sá djúpsteikti er aldrei eins girnilegur og sá sem úr ofninum kemur, hann verður hálf aumingjalegur við þessa eldunaraðferð en drottinn minn, góður er hann!
Megið endilega fylgja Gotterí á INSTAGRAM líka