Súkkulaðikaka með karamellukremiSúkkulaðikaka með karamellukremi

Hér er á ferðinni Betty í dulbúningi sem fór í afmæli á haustdögum og ég gleymdi alltaf að setja hingað inn. Það er ofureinfalt að gera þessa dásemd og ekki láta það að útbúa karamelluna hræða ykkur, það er ekkert mál!

Súkkulaðikaka með karamellukremi

Súkkulaðikaka með karamellukremi

Botnar

 • 1 x Betty Crocker Devils Food Cake mix
 • 4 egg
 • 125 ml ljós matarolía
 • 250 ml vatn
 • 3 msk. bökunarkakó
 • 1 pk súkkulaði Royal búðingur (duftið)
 1. Hrærið saman eggjum, olíu og vatni.
 2. Bætið kökudufti og bökunarkakó saman við og hrærið vel, skafið niður á milli.
 3. Að lokum fer Royal búðingurinn saman við og hrært er lítillega þar til hann hefur samlagast deiginu.
 4. Spreyið 3 x 15 cm kökuform með matarolíuspreyi og skiptið deiginu jafnt niður á milli þeirra.
 5. Bakið við 160°C í um 25 mínútur eða þar til prjónn kemur hreinn út.
 6. Kælið og snyrtið örlítið ofan af hverjum botni til að jafna þá áður en þið setjið kökuna saman.

Karamellusósa (fyrir krem og drip)

 • 300 g sykur
 • 130 g smjör við stofuhita
 • 180 ml rjómi
 • 1 tsk. salt
 1. Hafið öll hráefnin tilbúin í upphafi þar sem hræra þarf stanslaust í blöndunni.
 2. Setjið sykurinn í pott og hitið á meðalháum hita þar til hann er bráðinn og hrærið stanslaust í með sleif á meðan (þetta tekur um 6-8 mínútur).
 3. Setjið smjörið saman við sykurinn (það mun bubbla aðeins og það er allt í lagi) og hrærið vel þar til blandað.
 4. Blandið rjómanum þá út í pottinn og hrærið vel þar til blandað. Hér bubblar aftur og það má hækka hitann í 1-2 mínútur á því stigi og síðan taka af hellunni og setja saltið saman við.
 5. Gott er að hella karamellunni í aðra skál (ég setti strax 100 ml í mæliglas fyrir kremið og restina í aðra skál fyrir drippið).
 6. Karamellan þarf að ná stofuhita og þá má nota hana í kremgerð og drip.
 7. Ef hún verður of þykk áður en þið gerið drippið þá má setja hana 10-15 sek á meðalhita í örbylgjuofninn og hræra upp aftur (hún má samt vera frekar þykk þar sem hún lekur merkilega vel niður þó hún sé þannig).

Karamellukrem

 • 180 g smjör við stofuhita
 • 450 g flórsykur
 • 2 tsk. vanilludropar
 • 100 ml karamellusósa (sjá uppskrift að ofan)
 1. Þeytið smjörið þar til létt og ljóst.
 2. Bætið flórsykrinum saman við í nokkrum skömmtum.
 3. Setjið vanilludropana og karamellusósuna saman við og blandið vel.
 4. Smyrjið jöfnu magni á milli laganna og grunnhjúpið kökuna með þunnu lagi þannig að botnarnir sjáist samt í gegn. Á toppnum má þó vera um ½ cm þykkt lag.
 5. Restin af kreminu má þá fara í sprautupoka með 2D eða 1M stút frá Wilton og bíða þar til drip er komið á.

Drip og skreyting

 1. Gott er að kæla kökuna í að minnsta kosti 15 mínútur í ísskáp áður en drippið er sett yfir hana.
 2. Þegar hún er orðin köld má hella þunnu lagi af karamellunni sem eftir stendur yfir og láta leka niður hliðarnar.
 3. Þegar karamellan hefur aðeins tekið sig (fínt að setja aftur í ísskáp í um 15 mínútur) má sprauta kremtoppa með restinni af kreminu og setja Maltesers kúlur eða annað álíka ofan á hvern topp.
Súkkulaðikaka með karamellukremi

Megið endilega fylgja mér á INSTAGRAM

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun