
Þessi kaka er æðisleg! Þetta krem fór með mig aftur í tímann um nokkra áratugi og það var alveg eins gott og mig minnti. Ég er búin að vera að stelast í sneið og sneið alveg síðan ég bakaði þessa síðasta sunnudag, namm!

Mamma gerði þessa uppskrift í öllum afmælum og þá skar hún reyndar út fiðrildi úr forminu. Hún kom með þessa uppskrift handskrifaða til mín ásamt stenslum úr bökunarpappír til að skera út fiðrildi. Ég ætlaði að setja hana í Veislubókina í vor en síðan var nóg komið af uppskriftum þar svo hér kemur hún loksins. Ég ákvað hins vegar að byrja á að prófa hana svona og næst ætla ég að spreyta mig í fiðrildagerðinni.

Súkkulaðikaka með englakremi
Súkkulaðikaka
- 350 g hveiti
- 350 g sykur
- 1 tsk. lyftiduft
- 1 tsk. salt
- 3 msk. bökunarkakó
- 150 g smjörlíki við stofuhita
- 2 egg
- 260 ml mjólk
- 2 tsk. vanilludropar
- Hitið ofninn 170°C.
- Setjið hveiti, lyftiduft, salt og bökunarkakó í skál og hrærið saman, leggið til hliðar.
- Þeytið saman sykur og smjörlíki þar til það er létt og ljóst.
- Bætið eggjunum saman við, einu í einu og skafið niður á milli.
- Því næst fara þurrefnin út í á víxl við mjólkina og að lokum vanilludroparnir.
- Hrærið deigið þar til það er slétt og fallegt og hellið í vel smurt kökuform sem er um 25-27 cm í þvermál.
- Bakið í um 40 mínútur eða þar til prjónn kemur út aðeins með smá kökumylsnu á, ekki blautu deigi og kælið botninn áður en kremið er sett á.
Englakrem
- 250 g sykur
- 3 msk. sýróp
- 4 msk. vatn
- ½ tsk. vanilludropar
- 3 eggjahvítur
- Setjið allt nema eggjahvítur í pott og hitið að suðu, lækkið þá hitann og hrærið vel í þar til sykurinn leysist upp (5-7 mínútur) og takið þá af hellunni.
- Stífþeytið eggjahvíturnar og hellið heitri sykurblöndunni saman við í mjórri bunu.
- Þegar öll sykurblandan er komin saman við má þeyta blönduna aftur þar til stífir toppar myndast.
- Smyrjið yfir súkkulaðibotninn kremi og á hliðarnar. Þetta er þykkt lag en kremið er svo létt í sér að því meira, því betra segi ég.

Megið endilega fylgja Gotterí líka á INSTAGRAM