SúkkulaðitertaDjöflaterta með súkkulaðikremi

Ég er með eitthvað æði fyrir súkkulaðikökum þessa dagana og finnst það bara alls ekkert leiðinlegt, hahaha. Ég hef haft þessa uppskrift lengi í „favorites“ eins og svo margar aðrar sem verða á vegi mínum á veraldarvefnum. Þessi kemur úr smiðju Natasha’s Kitchen en ég elska að fylgjast með myndböndum og uppskriftum frá henni því hún er hress og skemmtileg með girnilegar og einfaldar uppskriftir.

Geggjuð súkkulaðikaka

Það sem vakti athygli mína með þessa uppskrift er að það eru engin egg í botnunum, mjööööög mikið kaffi og hún er súpereinföld! Ég ákvað því að breyta nákvæmlega engu og sjá hvort hún myndi heppnast eins vel og myndir og umsagnir gáfu í skyn……og drottinn minn það er sko aldeilis hægt að segja það!

Djöflaterta með súkkulaðikremi

Þessi fékk inngöngu í stórt fjölskylduboð hér á föstudaginn og það voru allir að missa sig yfir henni svo það má segja hún haldi áfram að fá góð meðmæli um allan heim…..næsta tilraun í súkkulaðikökugerð hjá mér verður án efa að reyna að betrumbæta þessa köku…….ef það er á annað borð hægt!

Súkkulaðikrem með smjöri og rjómaosti

Kremið er brjálæðislega gott og mjög mikilvægt að hafa vel af því, held ég hafi aldrei sett svona mikið krem á köku en samt var smá afgangur. Natasha talar um að þetta sé eins og kakan í kvikmyndinni Matilda og þegar ég fór að skoða sambærilegar kökur á netinu voru margir matarbloggarar sem vísuðu í sömu köku svo ætli ég þurfi ekki að reyna að finna þessa mynd á Netflix og leyfa stelpunum mínum að horfa á hana til að taka samanburðinn út 🙂

Djöflaterta með súkkulaðikremi

Súkkulaðiterta

Súkkulaðibotnar

 • 390 g hveiti
 • 50 g bökunarkakó
 • 400 g sykur
 • 2 tsk. matarsódi
 • 1 tsk. salt
 • 500 ml volgt, uppáhellt kaffi
 • 2 msk. hvítvínsedik
 • 1 msk. vanilludropar
 • 100 ml ólífuolía (ljós)
 1. Hitið ofninn í 175°C
 2. Hrærið öllum þurrefnum saman í hrærivélarskálinni.
 3. Blandið kaffi, ediki, vanilludropum og ólífuolíu saman í könnu og hellið varlega saman við þurrefnin og hrærið á lægsta hraða.
 4. Aukið hraðann þegar allt er blandað og skafið niður á milli.
 5. Skiptið niður í 2x 20 cm bökunarform sem búið er að smyrja/spreyja vel að innan og klippa bökunarpappír í botninn (ég vigtaði um 670 g af deigi í hvort form).
 6. Bakið í um 30 mínútur eða þar til prjónn kemur út með smá kökumylsnu á en ekki blautu deigi og kælið botnana vel áður en kremið fer á þá.

Súkkulaðikrem

 • 340 g rjómaostur við stofuhita
 • 225 g smjör við stofuhita
 • 660 g flórsykur
 • 90 g bökunarkakó
 • ½ tsk. salt
 • 2 tsk. vanilludropar
 1. Þeytið saman rjómaost og smjör þar til létt og ljóst.
 2. Sigtið flórsykur og bökunarkakó saman við og blandið á lágum hraða í um eina mínútu og aukið svo hraðann og blandið áfram í 1-2 mínútur.
 3. Að lokum má setja saltið og vanilludropana og þeyta aðeins áfram.
 4. Smyrjið vel af kremi á milli botnanna og allan hringinn, þetta krem er létt í sér og því má vera vel af því.
 5. Geymið kökuna í kæli og takið út um 30 mínútum áður en bera á hana fram (einnig hægt að bera hana fram beint úr kælinum).
Djöflaterta með súkkulaðikremi

Megið endilega fylgja Gotterí á INSTAGRAM ef þið eruð ekki að því nú þegar

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun