Kjúklingasalat ala Vegamót⌑ Samstarf ⌑
Hollt og gott kjúklingasalat uppskrift

Í sumar á ferðalagi okkar um Vestfirðina heimsóttum við veitingastaðinn Vegamót á Bíldudal. Þar fékk ég dásamlegt kjúklingasalat í hádeginu sem ég gat ekki hætt að hugsa um. Ég mundi svona sirka hvað var í því, skoðaði myndina mína og matseðilinn hjá þeim vel og vandlega og ákvað að reyna að herma þetta eftir.

Kjúklingasalat ala Vegamót með mangósósu, chili hnetum og góðgæti

Það er oft svo góð sweet chili mangósósa finnst mér í salötum og öðru á veitingastöðum en síðan er erfitt að finna slíka sósu á flösku í matvöruverslunum. Ég ákvað því að búa til mína eigin mangósósu sem var alveg æðisleg en auðvitað ef þið finnið góða slíka í búðinni má að sjálfsögðu prófa að nota slíka í staðinn.

Besta kjúklingasalatið

Kjúklingasalat ala Vegamót

Fyrir 3-4 manns

Kjúklingasalat

 • 4 kjúklingabringur
 • Iceberg salat
 • Tómatar
 • Mangó
 • Mangó-chili sósa (sjá uppskrift hér að neðan)
 • 5 msk. Hellmann‘s majónes
 • 4 tsk. grænt pestó
 • Til hamingju Chili jarðhnetur
 • Salt og pipar eftir smekk
 • Ólífuolía til steikingar
 1. Útbúið mangó-chili sósuna og geymið fram að notkun (þetta mætti þess vegna gera daginn áður en allt í lagi bara rétt áður en þið hefjist handa við eldamennskuna líka).
 2. Berjið kjúklingabringurnar niður til að þynna þær vel, steikið upp úr ólífuolíu stutta stund á hvorri hlið. Saltið og piprið eftir smekk og setjið í 180°C heitan ofn í um 10 mínútur til viðbótar. Útbúið salatið á meðan.
 3. Skerið niður iceberg, tómata og mangó og raðið á fat/í skál.
 4. Hrærið saman majónesi og pestó, setjið í lítinn poka og klippið gat á endann, geymið.
 5. Saxið chili jarðhnetur og geymið.
 6. Þegar kjúklingurinn er tilbúinn má setja vel af mangósósu yfir hvern bita, skera hann niður og raða á fatið, næst má setja smá pestómajónes yfir til skrauts og að lokum strá vel af söxuðum chilihnetum yfir allt.
 7. Gott er að hafa afganginn af mangósósu, pestómajónesi og chilihnetum í skálum til að hver og einn geti skammtað sér að vild með salatinu.

Mangó-chili sósa

 • 2 x þroskað og mjúkt mangó
 • 2 rauð chili (fræhreinsuð)
 • 1 gul paprika
 • 100 ml vatn
 • 100 ml edik
 • 150 g sykur
 • 2 cm rifin engiferrót
 • 2 rifin hvítlauksrif
 • ¼ tsk. salt
 1. Skerið mangó, chili og papriku smátt niður og setjið ásamt öllum öðrum hráefnum í pott.
 2. Hitið að suðu og leyfið síðan að malla í um 20 mínútur.
 3. Takið af hitanum og maukið með töfrasprota, leyfið að kólna niður fram að notkun.
 4. Hægt er að setja í krukku, loka vel og geyma í kæli.
Kjúklingasalat með chilihnetum

Þetta salat er æðislegt og gaman að breyta aðeins út af vananum og prófa eitthvað nýtt. Það er alveg rosalega gott að hafa þessar chili hnetur út á salat, mmmmmmmmm!

Kjúklingasalat ala Vegamót með mangósósu, chili hnetum og góðgæti

Megið endilega fylgja Gotterí líka á INSTAGRAM

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun