Tálknafjörður – Látrabjarg – Rauðisandur – Dynjandi – Bíldudalur – Flateyri – Ísafjörður – Suðureyri – Súðavík – Mjóifjörður – Hólmavík

Jæja þá er komið að einni laaaaaaaaaaaaaangri færslu fyrir ykkur sem hafið áhuga á því að ferðast á Vestfjörðum!
Við fjölskyldan ákváðum að heimsækja staði í sumarfríinu þetta árið sem við höfðum ekki skoðað áður með stelpunum og fyrir valinu urðu Snæfellsnes og Vestfirðir. Upphaflega ætluðum við að gista í Stykkishólmi á Snæfellsnesi síðustu nóttina okkar þar og fara með ferjunni Baldri yfir til Vestfjarða. Appelsínugul viðvörun geisaði hins vegar í miðju sumarfríi svo við fórum bara aðeins heim á milli og keyrðum svo beint á Tálknafjörð og hér byrjar sú saga…..
Við vorum komin með langan hugmyndalista af áhugaverðum stöðum að heimsækja og gerðum okkar besta við að skoða sem flest á þeim lista. Hér fyrir neðan skrifum við því upp hringinn eins og við fórum hann en Strandirnar, Djúpavík og það svæði ætlum við að taka í annarri ferð síðar. Hér er síðan linkur á Google maps þar sem þið getið séð þetta allt á kortinu og bætt við því sem hentar fyrir ykkur.
Á Instagram í Highlights getið þið einnig séð þessa ferð í máli og myndum.

Við keyrðum Barðastrandaleiðina inn í Tálknafjörð og mæli ég sannarlega með því að stoppa þar í fallegu fjörunni einhvers staðar á leiðinni, já eða bara nokkrum sinnum eins og við!

Fyrsta stopp var á Hótel Bjarkalundi þar sem við hoppuðum aftur til fortíðar og fengum okkur hádegisverð. Staðurinn var fullur af kvikmyndatökufólki og leikurum sem voru við tökur á þáttunum Vegferð sem mér skildist á þeim að myndu koma í sýningu í haust.

Næsta stopp hjá okkur var í Hellulaug sem er staðsett niðri í fjörunni rétt áður en komið er í Flókalund. Þar er ótrúlega fallegt og gaman að liggja í heitri lauginni og horfa út á fjörðinn.

Við höfðum Hellulaug alveg útaf fyrir okkur en nokkrir bílar lögðu hins vegar á planinu þegar við vorum að fara uppúr.

Sundlaugin á Birkimel er einnig á Barðastrandaleiðinni og þar eru búningsklefar, flott sundlaug og heitur pottur niðri við fjöruna.

Við létum nægja að skoða þessa staði á leiðinni og drifum okkur næst á Tálknafjörð með stuttu stoppi á Patreksfirði.

Við vorum með gistingu bókaða í Systrakoti hjá henni Kristínu og á móti okkur tóku þessi fallegu hús, uppi á hæðinni við kirkjuna. Hægt er að hafa samband beint við Kristínu í gegnum síðuna hjá Tálknafjarðarbæ fyrir ykkur sem viljið bóka þessa frábæru gistingu.

Þar sem við vorum fimm manna fjölskylda á ferðinni leigðum við bæði húsin sem eru samliggjandi og þarna var dásamlegt að vera, allt svo hreint og snyrtilegt og útsýnið maður minn!

Við áttum góðar stundir á fallega Tálknafirði og munum klárlega koma þangað aftur.

Hversu geggjað er að vera með flugdreka á lofti í svona fallegu umhverfi. Við ákváðum að nýta síðustu hviður appelsínugulu viðvörunarinnar í eitthvað gáfulegt og gripum flugdreka með, hahaha! Hér erum við að leik á túninu við hlið Systrakots en þar eru sumarhús og gönguleiðir á dásamlegu svæði.
Við kíktum síðan að sjálfsögðu í Pollinn á Tálknafirði og vorum þar eftir kvöldmat annað kvöldið okkar í kvöldsól og blankalogni.

Fyrri daginn okkar lögðum við upp í „roadtrip“ eftir morgunmat og vorum á ferðinni allan daginn. Hér fyrir neðan kemur dagurinn í máli og myndum eins og hann leit út hjá okkur.
Fyrst stoppuðum við hjá skipsflakinu Garðari BA 64 en það stendur í fjörunni í Skápadal við Patreksfjörð og hægt að lesa nánar um söguna hér.

Hnjótur Museum er staðsett á leiðinni á Látrabjarg og þangað var áhugavert að koma. Hægt að skoða gamlar flugvélar, bát, víkingaskip og fleira spennandi.

Örlygshöfn og ljósir sandar prýða annars hlykkjótta malarvegina sem vísa leiðina til hins undurfagra Látrabjargs.

Að koma á Látrabjarg er ævintýri líkast. Hér erum við að tala um vestasta punktinn í allri Evrópu og undursamlegt fuglalíf er í bjarginu.

Við skriðum fram á brúnina, gengum upp með bjarginu, að vitanum og um allt svæðið og gátum nánast klappað lundunum.

Þessi stillti sér sannarlega upp fyrir okkur!

Eftir gott stopp á Látrabjargi voru allir orðnir svangir og á bakaleiðinni fengum við okkur hádegisverð á Hótel Breiðavík.

Þar fengum við dúndur góða hamborgara og annað góðgæti og getið þið lesið ykkur betur til um veitingastaðinn hér á blogginu.

Næst var ferðinni heitið á Rauðasand. Þangað höfum við lengi ætlað að fara og jeminn eini, þarna var sko fallegt!

Verðið var dásamlegt og stelpurnar léku sér í sandinum, mokuðu, óðu út í sjó og hlupu um. Það sem við vissum hins vegar ekki er að mikill munur er að koma að sandinum í flóði og fjöru. Þegar við komum var að flæða að svo við keyrðum niður að tjaldstæðinu og gengum þaðan út á sandinn. Þegar það er fjara er hins vegar hægt að beygja til hægri (til að leggja við tjaldsvæðið er beygt til vinstri) þegar komið er niður hlykkjótta brekkuna, leggja hjá kirkjunni, vaða þar út og ganga alveg út á sandbreiðuna á táslunum þessvegna því sandurinn er svo mjúkur. Þar var hins vegar komið vatn yfir allt þegar við komum svo næst munum við klárlega hitta á þennan dásamlega stað á háfjöru til að sjá hann enn betur.

Það var samt alls ekki eins og það vantaði sandinn þó við værum þarna í háflóði. Hér erum við að tala um ljósan sand svo langt sem augað eygir. Það var blankalogn og hlýtt þennan dag svo við hefðum getað stoppað marga klukkutíma þarna að mati stelpnanna. Næst munum við því koma með nesti og nýja skó og leyfa þeim að sulla og leika þarna allan daginn.

Við kvöddum Rauðasand í kvöldsólinni og blankalogni. Hér sjáið þið sandhrygginn yst í fjörunni en þegar það er háfjara skilst mér að vatnið sem hér sést innan við sandhrygginn fjari allt út og hægt sé að hlaupa þarna um í blautum sandinum fyrir næsta flóð. Hversu fallegt er þetta!

Með sand á táslunum, þreytt og sæl eftir daginn náðum við rétt að panta borð á Café Dunhaga áður en eldhúsinu lokaði og enduðum því frábæran dag á góðum veitingum á þessum fallega veitingastað á Tálknafirði.

Hægt er að lesa nánar um þá veitingahúsaheimsókn hér á blogginu.

Eftir tvær nætur í Systrakoti á Tálknafirði var förinni heitið yfir á Ísafjörð. Fyrsta stopp var í Bíldudal en svona tók bærinn á móti okkur um hádegisbil, hversu fallegt!

Við byrjuðum daginn á því að kíkja í Skrímslasetrið. Það er skemmtileg afþreying og flott safn sem vert er að skoða á ferð sinni um Bíldudal.

Ferðalög snúast síðan jafn mikið um að borða góðan mat og skoða áhugaverða staði hjá okkur fjölskyldunni. Hádegismaturinn þennan daginn var því tekinn á Vegamótum sem er æðislegur veitingstaður fyrir ofan höfnina í Bíldudal, getið lesið nánar um þá heimsókn hér.

Við röltum síðan aðeins um Bíldudal áður en ferðinni var heitið að Dynjanda á leiðinni yfir á Ísafjörð.

VÁ, VÁ, VÁ var það eina sem okkur datt í hug þegar við komum keyrandi að þessum fallega fossi!

Dynjandi er búinn að vera á „bucket“ listanum okkar í mörg ár og loksins fengum við að sjá þessa fegurð. Við gengum alveg upp að fossinum í dásamlegu veðri….og allt of mörgum flugum, hahaha (jebb, ef þú færð logn þá færðu flugur svo þetta er allt spurning um jafnvægi).

Við tókum mikið af myndum og stoppuðum dágóða stund bæði á upp- og niðurleið við þetta náttúruundur.

Næsta stopp var á Hrafnseyri en þar er fallegt og áhugavert safn ásamt kaffihúsi. Gaman að kíkja inn í torfhúsin og safnið og fræðast um sögu okkar Íslendinga.

Nú var ferðinni heitið á Þingeyri þar sem við fengum okkur vöfflur í Simbahöllinni. Við ætluðum að keyra upp á Sandafell til að sjá fallegt útsýni yfir svæðið en vegurinn þangað upp myndi ég segja að væri aðeins fyrir jeppa svo við tókum ekki sjensinn á Kiunni okkar.

Næst viðruðum við okkur á Holtsbryggju í Holti, keyrðum næstum framhjá en vildum ekki missa af þessum stað. Þarna er fjara með mjúkum og ljósum sandi og undurfallegt svæði.

Þá var komið að Flateyri. Við keyrðum um bæinn, skoðuðum snjóflóðavarnargarðana, kíktum á róló og fórum svo yfir á Ísafjörð að gista.

Það er magnað að sjá varnargarðana og hvernig þeir liggja í hlíðinni.

Næsti áfangastaður var Ísafjörður. Þar gistum við á Hótel Ísafirði í tvær nætur og skoðuðum okkur um í nágrenninu. Hægt er að lesa nánar um Hótel Ísafjörð í þessari færslu hér.

Við komum um kvöldmatarleytið fyrri daginn okkar, tékkuðum okkur inn, fengum okkur pizzu á Mamma Nína Pizzeria og fórum síðan í háttinn eftir langan dag.

Það eru ótrúlega mörg gömul og skemmtileg hús á Ísafirði og gaman að rölta þar um bæinn og skoða sig um.

Útsýnið úr öðru herberginu okkar var yfir torgið og ekki amalegt að sitja þar í gluggakistunni þegar maður er þriggja ára á leið niður í hótelmorgunverð.

Fyrsta stopp þennan morguninn var Bolafjall. Það var logn en aðeins þungt yfir og þegar við komum upp á topp sáum við ekki neitt nema þykk ský eftir áhugaverðan leiðangur á bílnum upp fjallið, í gegnum snjóveggi og fleira skemmtilegt um hásumar. Við ákváðum að ganga aðeins um engu að síður og á því kortéri sem við stoppuðum uppi tætti himininn af sér sem var magnað að sjá. Við freistuðum þess því að sjá yfir til Grænlands en það er sagt að það sé hægt á góðum degi. Eigum við ekki bara að segja að við höfum séð glitta í það þarna handan Hornstrandanna, hahaha!

Snarbrattar hlíðar við Bolafjall. Hér er einmitt verið að byggja útsýnispall sem verður held ég ansi magnaður, hlakka til að fara aftur síðar þegar hann verður tilbúinn.

Á bakaleiðinni keyrðum við í gegnum Bolungarvík og kíktum á sjóminjasafnið í Ósvör. Stelpunum fannst það áhugavert þó þeim fyndist lykta ansi illa í þurrkhjallinum, hahaha! Við keyrðum einnig út að vitanum í Bolungarvík en það þarf auðvitað að kíkja reglulega á hina ýmsu vita á svona ferðalögum.

Gamla bakaríið er á móti hótelinu, hinumegin við torgið og við fengum okkur hádegismat þar áður en haldið var áfram að flækjast um nágrenni Ísafjarðar þennan daginn.

Suðureyri var næsta mál á dagskrá. Hér fyrir ofan eru nokkrar myndir frá Bolungarvík og Suðureyri í bland. Við höfðum heyrt af því að hægt væri að kaupa fiskafóður á Suðureyri og gefa þorskunum að borða og nánast klappa þeim um leið. Við lögðum því að stað í fiskaleiðangur eftir hádegismatinn í þrískiptu göngin. Þetta er í fyrsta skipti sem við tökum beygju í jarðgöngum og það var klárlega upplifun útaf fyrir sig, sérlega fyrir verkfræðinginn. Þegar á Suðureyri var komið vissi hins vegar enginn hvað við vorum að tala um fyrr en við spjölluðum við fólk sem við hittum á bryggjunni. Þau bentu okkur á að fara í Nýlenduvöruverzlun Súgandafjarðar og kanna þetta mál þar en mögulega væru þetta gróusögur.

Í Nýlenduvöruverzlunina fórum við Harpa á meðan pabbinn lék við hinar yngri á æðislegum rólóvelli í bænum. Konan sem þar vann sagði að eitt sinn hefði þetta verið selt hjá Fisherman en í sumar hafa þeir haft lokað sökum Covid. Hún sagði okkur engu að síður frá því að við litla bryggju á leið út úr/inn í bæinn þar sem stæðu nokkur orlofshús væri staðurinn sem þessum fiskum hefði verið gefið svo við freistuðum gæfunnar, keyptum gular baunir hjá henni og fórum í leiðangur…..og viti menn!

Bryggjuna fundum við og líka gæfustu fiska sem við höfum séð. Þeir voru sannarlega glaðir með baunirnar og komu alveg upp að bryggjunni til okkar og stelpurnar höfðu virkilega gaman að þessu ævintýri.
Næst var að koma sér aftur „heim á hótel“, sturta sig og slaka á fyrir dásamlegan kvöldverð sem var framundan á veitingastaðnum Við Pollinn sem staðsettur er á Hótel Ísafirði.

Við enduðum á að sitja niðri á veitingstað í nokkra klukkutíma í margréttuðum mat og dásamlegheitum eftir skemmtilegan dag.

Að lokum fengum við okkur kvöldgöngu um bæinn þar sem allir stóðu á blístri og þá er nú gott að viðra sig aðeins.

Falleg söfn og veitingstaðir niðri við bryggjuna á Ísafirði.

Eftir góðan morgunmat á hótelinu var tími til að halda ferðalaginu áfram. Fyrsta stopp var á Súðavík þar sem við kíktum í Raggagarð. Raggagarður er virkilega flottur rólóvöllur og það besta var að við hittum akkúrat góða vini okkar og nágranna sem voru að ferðast um Vestfirði á sama tíma og við þarna, hverjar eru nú líkurnar á því!

Melrakkasetrið á Súðavík heillaði líka svo við kíktum þangað inn. Þar er hægt að fræðast um refi, horfa á myndbönd og lesa ýmislegt áhugavert.
Næst stoppuðum við á Hvítanesi og röltum þar um til að virða fyrir okkur seli. Það er mikið af selum á Vestfjörðum og yfirleitt hægt að sjá þá á skerjum á sjónum frá veginum í bunkum.

Litlibær í Skötufirði er kaffihús sem allir þurfa að prófa að heimsækja. Þar stoppuðum við næst á leið okkar til Mjóafjarðar og fengum dýrindis veitingar. Hægt er að lesa meira um Litla bæ hér á blogginu.

„Húsið“ heitir þessi flotti steinn sem stendur innarlega í Skötufirði. Það er smá saga í kringum það hvernig við fundum steininn en hana má lesa hér í færslunni um Litlabæ.

Síðustu nóttina okkar á þessu ferðalagi gistum við í Heydal. Þar er rekið sveitahótel og ýmis afþreying í boði og það er ekki af ástæðulausu að þetta svæði er kallað ævintýradalurinn! Þetta er bara eitthvað sem allir verða að skoða og prófa í lífinu, það er bara þannig.
Við komum okkur fyrir á herberginu okkar og fórum strax í sundlaugina í gróðurhúsinu og heitu pottana, kíktum á hestana og höfðum okkur svo til fyrir kvöldverð í gömlu hlöðunni. Þar fengum við dýrindis veitingar að hætti heimamanna og við tók spilakvöld og kósýheit.

Til stóð að gista í tvær nætur í Heydal og fara seinni daginn okkar á kajak út á sjó að skoða seli og í hestaferð en þar sem „haustlægðir“ um mitt sumar fóru aðeins aftur að stríða okkur ákváðum við bara að segja þetta gott og héldum heim á leið eftir frábæra daga á Vestfjörðum.

Við stoppuðum á Hólmavík á heimleiðinni, skoðuðum okkur um og fengum okkur hádegisverð á Café Riis.

Lambasalatið var geggjað og þið getið lesið meria um Café Riis hér á blogginu.

Eftirrétturinn var síðan tekinn á Erpsstöðum en þar er fjölskyldurekið rjómabú sem gaman er að heimsækja. Við keyptum okkur ís og osta til að taka með heim ásamt því að kíkja á dýrin á bænum.

TAKK FYRIR OKKUR yndislegu Vestfirðir!

Vona innilega þessi færsla komi til með að gagnast ykkur kæru lesendur þegar þið skipuleggið ferð á þessar slóðir.
Það er síðan gaman að fá að fylgjast með ef þið nýtið ykkur síðuna mína með því að merkja Gotterí á Instagram svo endilega líkið við síðuna mína þar líka!