Hér kemur uppskrift af dásamlegum kransakökubitum sem skreyttir voru í stíl við þemað í fermingarveislu dóttur minnar um síðustu helgi.
Sáraeinfalt er að útbúa svona bita sjálfur og töluvert ódýrara en að kaupa þá tilbúna, hvet alla til að prófa og ég myndi segja það þyrfti ekkert sérstak tilefni til. Þeir eru frábærir með kaffinu hvenær sem er og hægt að frysta og taka nokkra út þegar gesti ber að garði.
Mæli síðan með að þið leyfið hugmyndarfluginu að ráða þegar þið skreytið bitana, þeir þurfa alls ekki að vera skreyttir á „gamla mátann“.
Uppskriftin er frekar stór þar sem ég var að gera þá fyrir veislu og lítið mál fyrir ykkur að útbúa aðeins hálfa uppskrift til að prófa.
Kransakökubitar uppskrift
Um 50 stk
- 600 gr ODENSE Marcipan (þetta bleika)
- 300 gr sykur
- 4 eggjahvítur
- Brytjið marsipanið niður í nokkra hluta og setjið í hrærivélarskál með sykrinum, blandið vel saman með K-inu.
- Hrærið eggjahvíturnar saman og setjið í nokkrum skömmtum saman við marsipanblönduna. Blandan þarf að vera það blaut í sér að hægt sé að sprauta henni með stút svo hún er töluvert blautari en þegar kransakaka er útbúin.
- Sprautið toppa með stút 1M frá Wilton og bakið við 210°C í um 9-10 mínútur eða þar til topparnir verða örlítið brúnir á köntunum.
- Kælið og dýfið síðan ½ topp í brætt súkkulaði að eigin vali og skreytið með kökuskrauti.
Við röðuðum bitunum síðan í kringum kökuna sjálfa og settum innan í hana líka.
Hæ hæ 🙂
Ég var að velta því fyrir mér hvað þú átt við með „..blandið vel saman með K-inu“?
Hvað er „K-ið“?
Kær kveðja
Arna