Fermingarterta með gulláferð



aIMG_5461

Nú er komin rúm vika frá fermingu frumburðarins og við tók undirbúningur fyrir komu þriðju skottunnar á heimilið sem ætlar að láta sjá sig í aprílmánuði. Það hefur því ekki gefist mikill tími til að sinna öðru en því en hér kemur uppskrift af þessari dásamlega góðu fermingartertu sem samanstendur af brownie botni, jarðaberjamús, svampbotnum og rjóma….já og við skulum ekki gleyma gullblöðum sem óhætt er að borða!

aIMG_5409

Hún er mjög svipuð og margra laga jarðaberjatertan sem ég útbjó í fyrra fyrir útskrift systurdóttur minnar enda er erfitt að standast svona súkkulaði – jarðaberja- og rjómablöndu.

Á morgun kemur Vikan síðan út og þar getið þið fundið ítarlega umfjöllun um veisluna, veitingar og annað skemmtilegt. Ég er að sama skapi að vinna í tékklista fyrir fermingar út frá þessari reynslu og vonandi verður hann klár um helgina svo ég geti gefið þeim sem eiga eftir að ferma góð ráð.

aIMG_5573

Fermingarterta með gulláferð uppskrift

Uppskriftin dugar fyrir þrjú form, 6, 8 og 12“

Hér þarf að notast við smelluform og kökuplast (fæst í Allt í köku en einnig oft hægt að fá að kaupa í bakaríum). Eftir að kökubotnar hafa verið bakaðir þarf að klæða smelluformið að innan með kökuplasti og raða lögunum saman inn í því. Mikilvægt er að vera einnig með pappaspjöld fyrir tvo minni botnana og „burðarsúlur“.

Brownie botnar

  • 450 gr smjör
  • 285 gr sykur
  • 210 gr púðursykur
  • 6 egg
  • 600 gr suðusúkkulaði
  • 1 tsk salt
  • 5 msk bökunarkakó
  • 225 gr hveiti
  • 7 msk volgt vatn
  • 4 tsk vanilludropar
  1. Þeytið saman sykur (báðar tegundir) og smjör þar til létt og ljóst.
  2. Bætið eggjunum saman við einu í einu og skafið á milli.
  3. Bræðið súkkulaðið og hrærið í blönduna.
  4. Setjið þurrefnin út í og loks vatnið og vanilludropana.
  5. Klæðið smelluform með bökunarpappír í botninn og spreyið PAM á hliðarnar.
  6. Skiptið deiginu á milli formanna svo allir botnarnir verði svipaðir á þykkt.
  7. Bakið í 175° heitum ofni í um 30-35 mínútur eða þar til prjónn kemur út með smá kökumylsnu á endanum (ekki blautu deigi).
  8. Kælið og geymið þar til allt annað er tilbúið.

Svampbotnar

  • 6 egg
  • 570 gr sykur
  • 375 gr hveiti
  • 3 tsk lyftiduft
  • 300 ml vatn
  • 150 gr smjör
  1. Þeytið saman sykur og egg þar til létt og ljóst.
  2. Hitið saman vatn og smjör og leggið til hliðar.
  3. Blandið hveiti og lyftidufti saman við eggjablönduna og loks vatni og smjöri þegar bráðið.
  4. Skiptið niður í formin 3.
  5. Bakið við 200°C í um 15 mínútur eða þar til botnarnir verða gullinbrúnir.
  6. Kælið og skiptið síðan hverjum botni í tvennt með kökuskera, geymið þar til síðar.

Jarðaberjamús

  • 15 gelatín blöð
  • 230 gr sykur
  • 1 kg fersk jarðaber (maukuð í blandara)
  • 5 msk sítrónusafi
  • 1 l rjómi (þeyttur)
  1. Leggið gelatínblöðin í bleyti í um 1 líter af köldu vatni.
  2. Hitið saman maukuð berin, sítrónusafann og sykurinn þar til heitt (alls ekki sjóða).
  3. Bætið gelatíni saman við berjablönduna, hafið hana á vægum hita og hrærið vel á milli hvers blaðs.
  4. Hitið þar til vel blandað (um 5 mín) og færið þá yfir í skál og leyfið að ná stofuhita. Því næst má kæla blönduna í um klukkustund en hræra vel í henni á milli.
  5. Mikilvægt er að vakta blönduna vel og um leið og hún fer að verða hlaupkennd má blanda henni saman við þeytta rjómann með sleif og smyrjið ofan á brownie botnana. Kælið og leyfið músinni að taka sig áður en haldið er áfram (amk 1 klst).

Þeyttur rjómi og áframhaldandi samsetning

  • 1 l þeyttur rjómi á milli svampbotnanna
  1. Stífþeytið rjómann og haldið því næst áfram með samsetninguna.
  2. Fyrri svampbotinn settur ofan á jarðaberjamúsina, því næst þeyttur rjóminn og loks seinni svampbotninn.
  3. Nú þarf að plasta kökurnar og kæla í að minnsta kosti 4 klukkustundir eða yfir nótt.
  4. Smelluforminu er þá smeygt af og plastið fjarlægt. Kakan ætti hér að vera stíf og fín.
  5. Hér þarf að hjúpa hverja köku með þunnu lagi af hvítu smjörkremi, stafla henni með stoðum og skreyta að vild. Að þessu sinni notaði ég Orkedíur, rósir, brúðarslör og litlar makkarónur sem ég keypti frosnar í Stórkaup (litaði ljósar makkarónur með gulldufti) ásamt því sem ég pantaði „eadable gold sheets“ á Aliexpress og föndraði þau óreglulega yfir dökka súkkulaðibotninn. Til að setja punktinn yfir i-ið stakk ég gullskrauti með nafni fermingarbarnsins frá Hlutprent efst á kökuna og vakti það mikla lukku.

Kakan verður skemmtilega röndótt að innan, brún, bleik og hvít. Gullblöðin voru örþunn og í raun ekkert bragð af þeim, voru meira þarna fyrir útlitið.

aIMG_5458

3 Replies to “Fermingarterta með gulláferð”

  1. Sæl Berglind og takk fyrir frábæra síðu 🙂
    Ég hef bakað þessa og hún er auðvita algjört æði.
    Ég var að velta því fyrir mér ef við ætlum að baka hana með smá fyrirvara…. er þá best að baka bara botnana og frysta eða setja hana alla saman og í frysti? Hvað myndir þú segja?

    Bestu kveðjur

    1. Sæl Bryndís 🙂
      Gott að heyra síðan gagnist og ég er sko sammála þér með að þessi kaka er dásamlega góð!
      Þegar það er stór veisla í vændum finnst mér best að baka botnana með fyrirvara, plasta/pakka vel inn og frysta. Síðan setja kökuna alla saman deginum áður (nema blómin samdægurs ef þú ætlar að skreyta hana þannig). Það er alveg hægt að setja hana saman og frysta í heilu lagi en ég myndi ekki 100% treysta því að jarðaberjamúsin haldi stífleika sínum með þeim hætti svo ég myndi segja hitt sé öruggara 🙂

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun