18.08.18 var eflaust stór dagur hjá mörgum. Veðrið var dásamlegt þennan dag og var manni hugsað til þess hvað öll þessi brúðhjón sem eflaust ákváðu daginn fyrir löngu síðan væru heppin!
Nágrannar okkar þau Árni og Tobba voru ein af þeim sem gengu í það heilaga þennan dag og héldu þau fallegt sveitabrúðkaup.
Ég útbjó þessa útfærslu af „naked cake“ fyrir þau og sló kakan í gegn í veislunni. Um er að ræða súkkulaðiköku með súkkulaðismjörkremi en skreytta með vanillusmjörkemi. Þetta var mjög svipuð aðferð og við Þóra beittum á dögunum við brúðartertugerð svo þið getið lesið ykkur til um aðferðina þar.
Fallega skiltið með nöfnunum þeirra og dagsetningunni kom eins og svo oft áður frá snillingunum í Hlutprent en mér finnst eiginlega orðið ómissandi að hafa svona skilti á fallegum kökum.
Síðan er um að gera að baka þá botna og útbúa það krem sem ykkur þykir best og hægt er að útbúa þessa köku sem gulrótarköku, vanilluköku eða hvað sem er!