Ég hef aldrei áður prófað að gera heimagert hrásalat svo það var algjörlega kominn tími til!
Maðurinn minn er mikill hrásalatsmaður og var hæstánægður með þessa tilraun. Stefán vinur okkar hefur nokkrum sinnum boðið okkur í svokallaðan „subbumat“ svo þessi hugmynd er klárlega stolin frá honum og grillaði ég rif, pylsur og svínakjöt sem ég skar niður og raðaði á langan trébakka. Síðan hitaði ég vöfflufranskar í ofninum og sauð ferskan maís og bar fram með smjöri og salti. Hrásalatið setti klárlega punktinn yfir I-ið og mæli ég svo sannarlega með þessari blöndu.
Heimalagað hrásalat uppskrift
- 1 hvítkálshaus
- 150 gr rifnar gulrætur
- 400 ml majónes frá E. Finnsson
- 3 msk sykur
- 1 msk hvítvínsedik
- Salt og pipar eftir smekk
Heimalagað hrásalat aðferð
- Skerið kjarnann úr hvítkálinu og skerið það næst í mjög þunnar sneiðar. Skerið sneiðarnar niður í minni einingar og fjarlægið bita sem eru grófir.
- Afhýðið gulrætur og rífið gróft niður með rifjárni.
- Blandið majónesi, sykri, ediki, salti og pipar saman í skál og hellið yfir kálblönduna.
- Blandið vel og kælið yfir nótt. Mjög mikilvægt að kæla salatið í um sólahring til að leyfa kálinu að drekka í sig majónesblönduna og verða mýkra.
Þessi færsla er unnin í samstarfi við Vogabæ