Hollustuhrökkbrauð



⌑ Samstarf ⌑

Það er alltaf gott að hafa smá jafnvægi á mataræðinu er það ekki?

Hér er í það minnsta uppskrift af ótrúlega góðu og hollu hrökkbrauði sem ég get lofað ykkur að á eftir að slá í gegn ef þið prófið.
Eins og hvað ég er nú mikið fyrir sætindi og gotterí þá er nauðsynlegt að halda sig aðeins á mottunni á móti. Ég er einmitt búin að vera í 4/3 átakinu (sem felur í sér að halda sér á mottunni 4 daga vikunnar varðandi óhollustu og spá svo ekki sérstaklega í það sem ég borða frá því eftir hádegi á föstudögum og fram á næsta mánudag). Vinnufélagar mínir gera bara grín að þessu en mér er fúlasta alvara og finnst ég bara mjög dugleg 🙂 Þetta er í það minnsta gerlegt að minni hálfu og pottþétt betra en vera í óhollustunni 7 daga vikunnar! Ég meina….markmiðin í lífinu eru jú misjöfn 🙂

Ég útbjó þetta hrökkbrauð í byrjun september í fyrsta skipti eftir að ég fékk uppskrift hjá Ingu vinkonu, síðan þá er ég búin að gera það þrisvar sinnum því allir í fjölskyldunni eru vitlausir í það!

Hollustuhrökkbrauð uppskrift

  • 60 gr Til hamingju sólblómafræ
  • 50 gr Til hamingju sesamfræ
  • 60 gr Til hamingju hörfræ
  • 40 gr Til hamingju graskersfræ
  • 50 gr Maizenamjöl
  • 50 ml matarolía
  • 150 ml sjóðandi vatn
  • ½ tsk salt og gróft salt til að strá yfir í lokin
  1. Setjið öll fræin ásamt maizenamjöli saman í skál og blandið saman.
  2. Hellið sjóðandi vatni, maizenamjöli og salti saman við og hrærið vel, leyfið að standa í 10 mínútur og hrærið nokkrum sinnum í á meðan.
  3. Hellið blöndunni í ofnskúffu íklædda bökunarpappír og dreifið vel úr með spaða þar til þunnt lag myndast (blandan þekur tæplega eina skúffu).
  4. Stráið smá grófu salti yfir áður en þið bakið við 150°C í klukkustund.
  5. Leyfið hrökkbrauðinu að kólna í ofninum í um 15 mínútur eftir að slökkt hefur verið á honum og takið þá út og leyfið að standa á borðinu aðrar 15 mínútur.
  6. Nú má brjóta það í hæfilega stóra bita, leggja á eldhúspappír og leyfa að harðna vel og kólna áður en því er pakkað vel inn/sett í geymslubox.

Það tekur enga stund að hræra í þetta og síðan er bara að stilla klukkuna á símanum á eina klukkustund og gera eitthvað annað sniðugt á meðan.

Tags:

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun