Bakaðar ostakökur eru nýjung frá MS og fékk ég heiðurinn af því að útbúa tillögur af sósum til að hafa með þeim og fóru uppskriftirnar aftan á fallegu pakkningarnar.
Þetta var í raun ást við fyrsta smakk. Ég er mikil ostakökukona og elska bæði bakaðar og óbakaðar ostakökur. Það er bara svo gaman að fá fleiri tegundir í flóruna og þá er alltaf hægt að vera að prófa eitthvað nýtt.
Þar sem ég er mikill Cheesecake Factory aðdáandi fannst mér ég verða að gera ferska og góða jarðaberjasósu með vanillukökunni og síðan lá beinast við útbúa súkkulaðihjúp og strá heslihnetum á marmarakökuna. Auðvitað má leika sér með hvaða sósur sem er og held ég til dæmis að karamellusósa væri góð með báðum tegundum en hér verður hver og einn að hafa þetta eftir sínu höfði.
Jarðaberjasósa uppskrift
- 250 gr maukuð jarðaber
- 250 gr sykur
- 3 msk maizenamjöl
- 150 ml vatn
Blandið öllum hráefnunum saman í pott. Hitið blönduna að suðu og lækkið þá hitann og hrærið vel í blöndunni í 3 mínútur, hellið þá í skál og leyfið að kólna í 15 mínútur áður en sósunni er hellt yfir ostakökuna. Gott er að bera kökuna einnig fram með ferskum jarðaberjum og þeyttum rjóma.
Súkkulaðihjúpur uppskrift
- 100 gr smátt saxað suðusúkkulaði
- 50 ml rjómi
- 1 msk sýróp
Hitið rjómann að suðu og hellið yfir súkkulaðið í skál. Leyfið blöndunni að standa í um 2 mínútur og pískið því næst saman og bætið sýrópinu saman við. Látið blönduna því næst kólna örlítið og þykkna áður en henni er smurt yfir ostakökuna. Gott er að bera kökuna einnig fram með hnetum og þeyttum rjóma.
Mér finnst frábært að geta gripið tilbúnar ostakökur þegar tíminn er naumur og galdrað fram dýrindis sætindi á augabragði. Skemmtilegast finnst mér að taka þær úr bakkanum, setja á fallegan kökudisk og skreyta. Fersk ber, súkkulaðispænir eða annað dugar vel og gott er að hafa einnig þeyttan rjóma með þessum bökuðu kökum þar sem þær eru aðeins þéttari í sér en þær óbökuðu.
Ég klippi niður kantinn á álforminu á nokkrum stöðum og fletti því þannig af til að koma í veg fyrir að kakan aflagist. Síðan nota ég kökulyftara (eða stóran spaða) til að renna undir hana og lyfta henni yfir á kökudisk.