Humarvindlar með hvítlaukssósu



⌑ Samstarf ⌑

Þessa humarvindla smakkaði ég fyrst hjá Henný vinkonu. Hún sendi mér uppskriftina og sá ég að hún hafði birst í dagatali Íslandsbanka fyrir mörgum árum svo það er líklega hægt að rekja söguna langt aftur í ættir!

Þetta er svo brjálæðislega gott og alls ekki svo mikið mál að útbúa. Það er hægt að hafa þetta sem forrétt eða smárétt á hlaðborði, já eða auðvitað bara hvað sem er, líka hádegissnarl á sunnudegi eins og þessir enduðu á að verða. Dagsbirtan er nefnilega ekkert sérstaklega mikið að vinna með okkur matarbloggurunum í desember! Ætli þetta sé ekki um kortér á dag þar sem er gluggi til að taka fallegar myndir svona ef það yfir höfuð birtir eitthvað, hahaha.

Humarvindlar uppskrift

 • 1 stórt hvítt samlokubrauð
 • 1 askja skelflettur humar (um 300-400gr)
 • 180 g smjör
 • 2 x hvítlauksrif (pressuð)
 • 1 msk söxuð fersk steinselja
 • Salt, sítrónupipar og hvítlauksduft eftir smekk
 • Finnsson hvítlaukssósa.

Aðferð

 1. Skerið kantana af brauðsneiðunum og fletjið út á báðum hliðum svo það verði þunnt og þétt í sér.
 2. Bræðið smjörið og hrærið pressaðan hvítlaukinn, steinseljuna og smá hvítlauksdufti saman við.
 3. Raðið humri á brauðið, um 2 bitar duga fyrir hvert brauð en að sjálfsögðu má setja meiri humar í hvern bita svo þetta er smekksatriði (ég var með 350 g af humri, setti 2 bita á hverja sneið og úr urðu 18 stykki).
 4. Kryddið humarinn með sítrónupipar og salti.
 5. Rúllið brauðinu þétt utan um humarinn og leggið hann til hliðar með samskeytin niður.
 6. Hellið smjörblöndunni á disk með uppháum köntum og veltið hverjum bita létt upp úr blöndunni (varist að bleyta bitana of mikið en þó þannig að þeir þekjist alveg.
 7. Raðið bitunum á ofnskúffu íklædda bökunarpappír og bakið í um 12-15 mínútur við 200°C eða þar til þeir gyllast og verða stökkir að utan.
 8. Best að taka bitana strax af smjörpappírnum og raða á pappír til að koma í veg fyrir þeir liggji og linist upp í smjörinu sem eftir situr.
 9. Berið fram með E. Finnsson hvítlaukssósu og salati.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun