OMNOM lakkrísmús⌑ Samstarf ⌑

Í byrjun desember var jólahlaðborð í BestaBistró (mötuneytinu hjá Sýn) og var hver veislurétturinn öðrum betri hjá Steina og Co. Einn af eftirréttunum var þessi lakkrísmús með Omnom lakkríssúkkulaði sem setti fyrirtækið gjörsamlega á hliðina. Á Workplace var óskað eftir uppskriftinni sem Steini gaf okkur hana að sjálfsögðu. Ég tók hana og hagræddi hráefnum örlítið ásamt því að minnka skammtinn þar sem hann var mögulega stílaður fyrir heilt mötuneyti x nokkrum sinnum svo úr varð þessi heimilisvæna útgáfa sem allir geta leikið eftir.

Omnom lakkrísmús uppskrift

 • 750 ml rjómi
 • 30 g ljóst sýróp
 • 30 g hrásykur
 • 240 g Omnom súkkulaði með lakkrís og sjávarsalti

Aðferð

 1. Saxið súkkulaðið smátt niður og setjið í skál.
 2. Hitið 250 ml af rjómanum í potti ásamt sýrópi og hrásykri. Hitið að suðu og hrærið í þar til sykurinn er uppleystur.
 3. Hellið heitri rjómablöndunni yfir saxað súkkulaðið, leyfið að standa í um tvær mínútur og pískið þá saman þar til súkkulaðið er bráðið.
 4. Þá er restinni af rjómanum (500 ml) hellt saman við og blandað. Blandan er sett í lokað ílát og í kæli yfir nótt (3-4 klst duga).
 5. Gott er að hræra aðeins upp í blöndunni áður en hún fer í hrærivélina (örlítil skán getur myndast efst en það er allt í lagi). Blandan er síðan þeytt eins og rjómi þar til hún nær þeirri þykkt sem óskað er eftir.
 6. Hægt er að hella músinni í stóra skál eða skipta í minni einingar. Gott er að setja blönduna í stóran sprautupoka og klippa gat á endann ef setja á hana í lítil glös, skálar eða krukkur.
 7. Uppskriftin dugar í um 10-12 glös/krukkur svo auðvelt er að helminga hana séuð þið að gera eftirrétt fyrir færri en það.
 8. Fallegt er að skreyta músina með lakkrísflögum og berjum.

P.s ljóst sýróp og lakkrísflögur (kökuskraut) fást í Krónunni

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun