
Þessa elsku fallegu köku útbjó ég fyrir um mánuði síðan og loks kemur hún hingað inn fyrir ykkur að njóta. Mynd af henni var fyrst notuð til þess að auglýsa jólabaksturskeppni Matarvefs mbl og síðan birtist uppskriftin einnig fyrr í vikunni í Hátíðarmatarblaði Morgunblaðsins.

Þóra ritsýra Matarvefsins hringdi í mig daginn áður en hana vantaði mynd af köku til að prýða jólabaksturskeppnina. Ég var að fara að halda kökunámskeið daginn eftir en ákvað engu að síður að slá til. Hún var með ákveðna hugmynd, já eiginlega bara alveg mjööög ákveðna hugmynd að því hvernig hún vildi að kakan myndi líta út, hahaha. Hugmyndin er því frá henni komin eftir að hún sá köku skreytta á þennan hátt hjá Blue Bowl Recipes.

Ég fylgdi skreytingaraðferð frá þeim en notaði í kökuna TORO kryddkökumix og útbjó rjómaostakrem á milli og til að hjúpa hana. Síðan fengu auðvitað þátttakendur á námskeiðinu mínu daginn eftir að njóta hennar. Þóra sendi pabba sinn út í garð að saga eikartré og skutlaði til mín forláta eikarbitanum kortér í samsetningu á dásamlegheitunum. Ég skrúfaði marmaradisk af kökufæti og skrúfaði eikarplötuna á hann í staðinn svo úr varð þessi dásamlega náttúrulegi kökudiskur sem passaði vel fyrir þessa myndatöku.

Ég lék mér örlítið með kryddkökumixið eins og ég á til með að gera og úr varð alveg hreint fullkomin kryddkaka með jólaívafi.

Þessi sykruðu trönuber og rósmaríngreinar er síðan leikur einn að gera og væri nær að skreyta allt sem tengist jólum og mat með þessari fegurð.

Kryddkaka í jólabúningi
Kökubotnar
- 3 x Toro kryddkökumix
- 3 egg
- 6 dl vatn
- 300 g brætt smjör
- 1 pk Royal vanillubúðingur
- 2 tsk. kanill
- Hitið ofninn 170°C.
- Hrærið saman eggjum, vatni og bræddu smjöri.
- Bætið kökuduftinu saman við ásamt kanil og skafið niður á milli þar til blandan er slétt og fín.
- Að lokum fer Royal búðingsduftið saman við og aftur er blandað vel.
- Spreyið 3 x 20 cm form með matarolíuspreyi og skiptið deiginu niður á milli formanna.
- Bakið í um 30 mínútur eða þar til prjónn kemur hreinn út.
- Kælið botnana vel og skerið þá ofan af þeim með kökuskera til að hafa þá alla jafna og slétta.
Krem
- 200 g smjör við stofuhita
- 150 g rjómaostur við stofuhita
- 250 g Mascarpone ostur við stofuhita
- 750 g flórsykur
- 2 msk. mjólk
- 2 tsk. vanilludropar
- ¼ tsk. salt
- Þeytið saman smjör, rjómaost og Mascarpone ost þar til létt og ljóst.
- Setjið flórsykurinn saman við í nokkrum skömmtum ásamt mjólk, vanilludropum og salti.
- Hrærið þar til slétt og fallegt krem hefur myndast.
- Smyrjið um 1 cm þykku lagi á milli botnanna og á toppinn og rétt þekjið hliðarnar með kremi svo það sjáist vel í botnana í gegn.
- Skreytið og kælið þar til bera á kökuna fram.
Skraut
- 120 ml vatn
- 100 g sykur + 200 g til að rúlla upp úr (samtals 300 g)
- Um 7 stilkar af ferskum rósmaríngreinum
- 50-70 g fersk trönuber
- Hitið saman 100 g sykur og vatn að suðu og hrærið þar til sykurinn er uppleystur, takið þá af hellunni.
- Dýfið rósmaríngreinum í sykurlöginn, hristið hann aðeins af og leggið þær á bökunarpappír í um 15 mínútur.
- Því næst má setja trönuberin í pottinn og setja lok/viskastykki yfir og leyfið þeim að liggja í pottinum í um 15 mínútur.
- Takið þá trönuberin upp úr, hristið eins mikið af sykurleginum af þeim og þið getið og leggið á bökunarpappír í um 30 mínútur.
- Á meðan trönuberin hvíla má setja 200 g af sykri í grunna og víða skál og rúlla rósmaríngreinunum upp úr sykrinum og setja á nýjan hreinan bökunarpappír til þess að leyfa þeim að þorna.
- Þegar trönuberin hafa fengið að þorna í um 30 mínútur má einnig velta þeim upp úr sykrinum og færa yfir á nýjan bökunarpappír til að þorna.
- Það ætti að duga að leyfa þessu að liggja í um 15-30 mínútur og síðan nota til þess að skreyta kökuna eftir hentugleika.

Ef þessi kaka kemur ykkur ekki í jólaskap þá veit ég ekki hvað!

Megið endilega fylgja Gotterí á INSTAGRAM