
Þessi kaka! Án efa ein besta súkkulaðikaka sem ég hef bakað, hér er dökkt súkkulaði og lakkrískeimur sem ræður ríkjum og ekki skemmir fyrir að skreyta kökuna með þessum dásamlegu páskalakkrískúlum frá Johan Bülow.

70% súkkulaði er notað í botnana og í súkkulaðikreminu er FINE lakkrísduft frá Johan Bülow. Súkkulaði og lakkrís fer einstaklega vel saman og þessi kaka er algjör konfektmoli fyrir hvaða tilefni sem er.

Ég hvet ykkur til þess að prófa hana þessa yfir páskana og þið megið endilega merkja @gotterioggersemar á INSTAGRAM ef þið eruð að prófa, það er svo gaman að sjá þegar þið notið uppskriftirnar mínar.

Djöflaterta með lakkrískeim
Botnar
- 340 g smjör
- 150 g suðusúkkulaði 70%
- 70 ml sterkt, uppáhellt kaffi
- 2 tsk. vanilludropar
- 440 g púðursykur
- 6 stór egg
- 260 g hveiti
- 90 g bökunarkakó
- 2 tsk. matarsódi
- 1 tsk. salt
- Hitið ofninn í 175°C
- Klippið bökunarpappír í botninn á 4 x 15 cm stórum springformum og spreyið vel með matarolíuspreyi. Það má líka nota 3 x 20 cm form en þá verður kakan aðeins stærri og lægri.
- Bræðið smjörið, takið af hellunni og hrærið söxuðu suðusúkkulaðinu saman við. Hrærið þar til súkkulaðið er bráðið og hellið þá yfir í hrærivélarskálina með K-inu.
- Hellið kaffinu og vanilludropunum saman við.
- Næst má blanda púðursykrinum út í og síðan eggjunum, einu í einu og hræra aðeins á milli.
- Að lokum má sigta saman hveiti, kakó, matarsóda og salt og hræra saman við þar til slétt og fellt deig myndast.
- Skiptið niður í formin fjögur. Gott er að vigta deigið og setja um 390-400 g í hvert form (þannig verða botnarnir jafnari).
- Bakið í 30-35 mínútur og kælið alveg áður en þið skerið ofan af þeim. Gott er að skera vel ofan af til að hafa þá alla jafna.
Krem
- 220 g rjómaostur við stofuhita
- 110 g smjör við stofuhita
- 500 g flórsykur
- 90 g bökunarkakó
- 3 tsk. Johan Bülow FINE lakkrísduft
- ½ tsk. salt
- Þeytið saman rjómaost og smjör þar til létt og ljóst.
- Bætið flórsykri og kakó saman við í nokkrum skömmtum og skafið niður á milli.
- Að lokum má setja lakkrísduftið og saltið út í og hræra vel.
- Smyrjið síðan vænu lagi af kremi á milli botnanna. Hægt er að nota hringlaga stút sem er um 1 cm í þvermál til þess að sprauta þéttar „doppur“ af kremi til að gera útlitið skemmtilegt og gott er að miða við að minnsta kosti 1,5 cm þykkt lag af kremi.
Ganaché
- 100 g saxað suðusúkkulaði
- 60 ml rjómi
- 1 tsk. Johan Bülow FINE lakkrísduft
- Blandið saman söxuðu súkkulaði og lakkrísdufti í skál.
- Hitið rjómann að suðu og hellið yfir súkkulaðið, pískið saman með gaffli þar til slétt og fallegt.
- Hellið yfir efsta botninn og leyfið að leka óreglulega niður hliðarnar.
Skreyting
- Johan Bülow ÆGG páskalakkrískúlur, bæði Vanilla Mango og Crispy Caramel
- Johan Bülow FINE lakkrísduft
- Stráið lakkrísdufti yfir allan súkkulaðihjúpinn með þurrum pensli.
- Skreytið með lakkrískúlunum.

Páskalakkrísinn frá Johan Bülow fæst í Epal og ef ég mætti velja hvort ég vildi hefðbundið páskaegg eða páskegg með þessum brjálæðislega góðu kúlum þyrfti ég ekki að hugsa mig lengi um! Hér fyrir neðan getið þið farið á heimasíðu Epal og pantað ykkur þessi dásamlegheit.
- Lakkrís ÆGG Crispy Caramel í boxi, eða í „páskaeggi“
- Lakkrís ÆGG Vanilla Mango í boxi, eða í „páskaeggi“

Í lokin stráði ég vel af lakkrísdufti yfir toppinn á kökunni og súkkulaðihjúpurinn og lakkrísduftið passar virkilega vel saman, namm!

Megið endilega fylgja Gotterí á INSTAGRAM