
Brauðtertur hafa komið sterkar inn undanfarið og virðast þær sívinsælar í veislum og við hátíðleg tilefni. Páskarnir eru að ganga í garð og hvernig væri nú að eiga eina slíka til að gæða sér á yfir hátíðirnar.

Það er alls ekki flókið að búa til brauðtertu, mesti tíminn fer líklega í skreytinguna sjálfa, sérlega þegar maður hefur gaman af slíku eins og ég, hahaha!

Þessi hér er páskaleg um leið og hún er ansi sumarleg, krossum að minnsta kosti fingur að vorið og sumarið sé á næsta leyti!

Skinkubrauðterta með suðrænu ívafi
Brauðterta
- 450 g Hellmann‘s majónes
- 100 g sýrður rjómi (18%)
- 1-2 tsk. sriracha chili sósa
- Salt, pipar, cheyenne pipar eftir smekk
- 10 harðsoðin egg
- 2 ananashringir úr dós (eða ferskir)
- 400 g skinka
- 1 ½ fransbrauð (um 34 sneiðar)
- Pískið saman majónes, sýrðan rjóma og sriracha sósu, kryddið til með salti, pipar og cheyenne pipar.
- Skerið eggin á tvo vegu í eggjaskera og setjið út í majónesblönduna.
- Saxið ananassneiðarnar alveg niður í mauk og hellið saman við ásamt smátt skorinni skinkunni.
- Vefjið öllu vel saman og skerið þá næst skorpuna af öllum brauðsneiðunum, geymið skorpuna því hún er notuð í skreytingunni.
- Gott er að nota um 22 cm hring af smelluformi og setja ofan á kökudisk. Fyrsta lagi af brauði er raðað í botninn, 4 sneiðar ættu að komast í miðjuna og svo rífið/skerið þið brauðið bara til svo það fylli upp í hringinn (þetta þarf ekkert að vera fullkomið, salatið og majónesið í lokin mun fylla upp í götin).
- Skiptið salatinu í 4 hluta og setjið ¼ ofan á fyrsta brauðlag og smyrjið alveg út í kantana á smelluforminu og svo koll af kolli þar til þið eruð komin með 5 lög af brauði og 4 lög af salati.
- Kælið á meðan þið gangið frá og gerið skrautið tilbúið. Skerið svo með hníf meðfram smelluhringnum áður en þið losið hann og togið varlega upp.
Skreyting
- Um 400 g Hellmann‘s majónes
- Brauðskorpa af fransbrauðinu
- 2 harðsoðin egg
- Ferskur ananas
- Agúrka í sneiðum
- Sítróna í sneiðum
- Kiwi í sneiðum
- Græn vínber
- Steinselja
- Blæjuber
- Smyrjið brauðtertuna að utan með þunnu lagi af majónesi með kökuspaða.
- Raðið brauðskorpu allan hringinn og skreytið síðan að vild ofan á.

Ananas og Sriracha sósa gefa skinkusalatinu skemmtilegan og ferskan tón og það er um að gera að smakka sig áfram með svona nýjungar.

Það voru nokkrir sem fengu sendingu af henni þessari og allir voru himinglaðir. Það má því gera dásamlega brauðtertu og færa þeim sem manni þykir vænt um sneið víst enginn má hittast þessa dagana, já eða bara eiga hana í ísskápnum fyrir morgun- hádegis- og kvöldverð á þessum undarlegu tímum!

Leikið ykkur síðan endilega með skreytinguna, þegar kemur að slíku eru möguleikarnir óendanlegir!

Megið endilega fylgja Gotterí líka á INSTAGRAM