Cinnabon kanilsnúðar með karamellu og pekanhnetum



⌑ Samstarf ⌑
Cinnabon snúðar með karamellu og pekanhnetum

Þar sem algjört snúðaæði hefur gripið landann í blessaða samkomubanninu ákvað ég að skella inn sérfærslu fyrir karamellu útgáfu af himnesku kanelsnúðunum sem hafa verið hér á síðunni um árabil. Þegar við bjuggum í Bandaríkjunum lá leið okkar oftar en ekki á Cinnabon og þar fengum við okkur alltaf snúða með karamellubráð og pekanhnetum líkt og þessa hér, namm þeir eru svo góðir!

Cinnabon snúðar með karamellu og pekanhnetum

Ég hef í gegnum árin bakað þessa snúða í skúffukökuformi þar sem ég hef ekki átt neitt annað sem hentar vel fyrir 3 x 4 snúða þar til nú. LOKSINS eignaðist ég eldfast Le Creuset mót sem hefur verið ansi lengi á óskalistanum. Le Creuset vörurnar úr Byggt og búið eru dásamlegar og ég hef leyft mér að kaupa eina og eina vöru frá þessu fallega merki í gegnum tíðina þar sem það er svo gaman að eiga fallegan borðbúnað.

Cinnabon snúðar með karamellu og pekanhnetum

Hér sjáið þið líka krúttlegustu potta heims sem hægt er að nota á fjölbreyttan máta. Inga og Stefán vinir okkar nota þessa potta oft undir salt, krydd, sultur og annað meðlæti á matarborðinu, það er hægt að baka í þeim osta, hita ostasósu, gera súpu fyrir hvern og einn og ég gæti eflaust haldið endalaust áfram. Ég er í það minnsta farin að safna þessum og langar helst að eiga einn Le Creuset mini pott í hverjum lit þeir eru allir svo fallegir!

Cinnabon snúðar með karamellu og pekanhnetum

Cinnabon kanilsnúðar með karamellu og pekanhnetum

Snúðadeig

  • 120 ml volgt vatn (+ 1 msk sykur)
  • 1 pk þurrger (11,8 g)
  • 1 egg
  • 180 ml nýmjólk
  • 1 tsk. salt
  • 50 g sykur
  • 60 g brætt smjör
  • 1 tsk. vanilludropar
  • 530 g hveiti
  1. Setjið volgt vatn og 1 msk. sykur í skál, hrærið þurrgerinu saman við og látið standa í um 5 mínútur eða þar til þurrgerið fer að freyða.
  2. Setjið „krókinn“ á hrærivélarskálina og hrærið saman egg, mjólk, salt, sykur og bráðið smjör á lágum hraða þar til vel blandað.
  3. Bætið við gerblöndunni og vanilludropunum og blandið saman.
  4. Því næst má bæta hveitinu saman við í nokkrum skömmtum og hræra á meðalhraða í um 5 mínútur. Takið deigið næst úr hrærivélarskálinni og „klappið“ saman í góða kúlu (ef það er of klístrað má bæta örlitlu hveiti saman við).
  5. Penslið skál með matarolíu og veltið deigkúlunni upp úr olíunni, setjið plast yfir skálina og látið hefast á hlýjum stað í 2 klukkustundir eða þar til deigið hefur um það bil tvöfaldað stærð sína.
  6. Hellið deiginu úr skálinni á hveitistráðan flöt og þrýstið deiginu með fingrunum til beggja hliða þar til það hefur myndað rétthyrndan flöt sem er um það bil 30 x 40 cm.

Fylling

  • 80 g smjör við stofuhita + meira til að smyrja mótið
  • 70 g sykur
  • 130 g púðursykur
  • 1 ½ msk. kanill
  • 50 g smjör til að pensla á í lokin
  1. Smyrjið smjörinu jafnt yfir deigið.
  2. Blandið sykri, púðursykri og kanil saman í skál og stráið yfir deigið (já þetta er mikið af sykri).
  3. Rúllið þétt upp frá lengri hliðinni og jafnið síðan rúlluna út í höndunum áður en þið skerið niður.
  4. Skerið því næst í 12 jafna hluta (mér finnst best að skipta fyrst í miðju, þeim hlutum svo í tvennt og svo öllum í þrennt).
  5. Smyrjið eldfast mót vel með smjöri, raðið snúðunum með jöfnu millibili í formið, plastið og leyfið snúðunum að hefast aftur í um klukkustund.
  6. Hitið ofninn í 175 gráður.
  7. Penslið snúðana með bræddu smjörinu og bakið í um 20-25 mínútur eða þar til þeir eru orðnir vel gylltir. Gott er að rista pekanhneturnar og útbúa karamelluna á meðan og hella síðan yfir snúðana þegar þeir koma úr ofninum.

Karamella og pekanhnetur

  • 200 g púðursykur
  • 110 g smjör
  • 5 msk. rjómi
  • 100 g pekanhnetur
  1. Setjið sykur, smjör og rjóma saman í pott, náið upp suðunni og leyfið að bubbla í nokkrar mínútur.
  2. Lækkið þá niður í meðalhita og hrærið reglulega í blöndunni í nokkrar mínútur þar til karamellan byrjar að þykkna og takið þá af hellunni og leyfið hitanum aðeins að rjúka úr.
  3. Ristið pekanhneturnar á pönnu við meðalháan hita í um 5 mínútur eða þar til þær dökkna örlítið og þið finnið góðan hnetuilm, saxið þær þá niður og geymið þar til þið hafið smurt karamellunni á snúðana.
Cinnabon snúðar með karamellu og pekanhnetum

Þetta fat er algjörlega fullkomið fyrir svona snúða og svo á ég án efa eftir að gera fleiri gómsætar uppskriftir í því í framtíðinni. Það er líka svo fallegt á veisluborðið undir heita rétti og fleira í þeim dúr.

Megið endilega fylgja Gotterí líka á INSTAGRAM

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun