
Þar sem algjört snúðaæði hefur gripið landann í blessaða samkomubanninu ákvað ég að skella inn sérfærslu fyrir karamellu útgáfu af himnesku kanelsnúðunum sem hafa verið hér á síðunni um árabil. Þegar við bjuggum í Bandaríkjunum lá leið okkar oftar en ekki á Cinnabon og þar fengum við okkur alltaf snúða með karamellubráð og pekanhnetum líkt og þessa hér, namm þeir eru svo góðir!

Ég hef í gegnum árin bakað þessa snúða í skúffukökuformi þar sem ég hef ekki átt neitt annað sem hentar vel fyrir 3 x 4 snúða þar til nú. LOKSINS eignaðist ég eldfast Le Creuset mót sem hefur verið ansi lengi á óskalistanum. Le Creuset vörurnar úr Byggt og búið eru dásamlegar og ég hef leyft mér að kaupa eina og eina vöru frá þessu fallega merki í gegnum tíðina þar sem það er svo gaman að eiga fallegan borðbúnað.

Hér sjáið þið líka krúttlegustu potta heims sem hægt er að nota á fjölbreyttan máta. Inga og Stefán vinir okkar nota þessa potta oft undir salt, krydd, sultur og annað meðlæti á matarborðinu, það er hægt að baka í þeim osta, hita ostasósu, gera súpu fyrir hvern og einn og ég gæti eflaust haldið endalaust áfram. Ég er í það minnsta farin að safna þessum og langar helst að eiga einn Le Creuset mini pott í hverjum lit þeir eru allir svo fallegir!

Cinnabon kanilsnúðar með karamellu og pekanhnetum
Snúðadeig
- 120 ml volgt vatn (+ 1 msk sykur)
- 1 pk þurrger (11,8 g)
- 1 egg
- 180 ml nýmjólk
- 1 tsk. salt
- 50 g sykur
- 60 g brætt smjör
- 1 tsk. vanilludropar
- 530 g hveiti
- Setjið volgt vatn og 1 msk. sykur í skál, hrærið þurrgerinu saman við og látið standa í um 5 mínútur eða þar til þurrgerið fer að freyða.
- Setjið „krókinn“ á hrærivélarskálina og hrærið saman egg, mjólk, salt, sykur og bráðið smjör á lágum hraða þar til vel blandað.
- Bætið við gerblöndunni og vanilludropunum og blandið saman.
- Því næst má bæta hveitinu saman við í nokkrum skömmtum og hræra á meðalhraða í um 5 mínútur. Takið deigið næst úr hrærivélarskálinni og „klappið“ saman í góða kúlu (ef það er of klístrað má bæta örlitlu hveiti saman við).
- Penslið skál með matarolíu og veltið deigkúlunni upp úr olíunni, setjið plast yfir skálina og látið hefast á hlýjum stað í 2 klukkustundir eða þar til deigið hefur um það bil tvöfaldað stærð sína.
- Hellið deiginu úr skálinni á hveitistráðan flöt og þrýstið deiginu með fingrunum til beggja hliða þar til það hefur myndað rétthyrndan flöt sem er um það bil 30 x 40 cm.
Fylling
- 80 g smjör við stofuhita + meira til að smyrja mótið
- 70 g sykur
- 130 g púðursykur
- 1 ½ msk. kanill
- 50 g smjör til að pensla á í lokin
- Smyrjið smjörinu jafnt yfir deigið.
- Blandið sykri, púðursykri og kanil saman í skál og stráið yfir deigið (já þetta er mikið af sykri).
- Rúllið þétt upp frá lengri hliðinni og jafnið síðan rúlluna út í höndunum áður en þið skerið niður.
- Skerið því næst í 12 jafna hluta (mér finnst best að skipta fyrst í miðju, þeim hlutum svo í tvennt og svo öllum í þrennt).
- Smyrjið eldfast mót vel með smjöri, raðið snúðunum með jöfnu millibili í formið, plastið og leyfið snúðunum að hefast aftur í um klukkustund.
- Hitið ofninn í 175 gráður.
- Penslið snúðana með bræddu smjörinu og bakið í um 20-25 mínútur eða þar til þeir eru orðnir vel gylltir. Gott er að rista pekanhneturnar og útbúa karamelluna á meðan og hella síðan yfir snúðana þegar þeir koma úr ofninum.
Karamella og pekanhnetur
- 200 g púðursykur
- 110 g smjör
- 5 msk. rjómi
- 100 g pekanhnetur
- Setjið sykur, smjör og rjóma saman í pott, náið upp suðunni og leyfið að bubbla í nokkrar mínútur.
- Lækkið þá niður í meðalhita og hrærið reglulega í blöndunni í nokkrar mínútur þar til karamellan byrjar að þykkna og takið þá af hellunni og leyfið hitanum aðeins að rjúka úr.
- Ristið pekanhneturnar á pönnu við meðalháan hita í um 5 mínútur eða þar til þær dökkna örlítið og þið finnið góðan hnetuilm, saxið þær þá niður og geymið þar til þið hafið smurt karamellunni á snúðana.

Þetta fat er algjörlega fullkomið fyrir svona snúða og svo á ég án efa eftir að gera fleiri gómsætar uppskriftir í því í framtíðinni. Það er líka svo fallegt á veisluborðið undir heita rétti og fleira í þeim dúr.
Megið endilega fylgja Gotterí líka á INSTAGRAM