
Um helgina gengum við hjónin á Akrafjall. Við höfum áður farið á Geirmundartind og ég einnig á Háahnúk en að þessu sinni ákváðum við að ganga hringinn inn úr dalnum og á báða tindana. Ég var aðeins búin að lesa mér til um þetta og ef maður gengur alveg yst og sleppir því að fara mikið ofan í dalinn eru þetta um 15 km. Við vorum aðeins á hraðferð og héldum við værum að flýta fyrir okkur með því að skokka ofan í dalinn en fjarlægðin gerir ekki bara fjöllin blá heldur líka lág og þegar niður var komið sáum við að það var heilmikil ganga upp að nýju í stað þess að hafa farið lengra inn dalinn og þannig náð að ganga fyrir ofan Berjadal að mestu alla beygjuna, hahaha! Við enduðum því í rúmum 12 km og hátt í 1000 m hækkun. Við vorum um þrjár klukkustundir að ganga í bland við skokka þetta en ég mæli klárlega með því að gefa sér aðeins lengri tíma, ganga lengri leiðina alveg austur úr og ná að taka nestispásu á leiðinni!

Til þess að ganga á Akrafjall þarf að koma sér að bílastæðinu við fjallið sem er nálægt vatnsbóli Akurnesinga. Ég hef áður skrifað færslu um Akranes og þar finnið þið ítarlegri lýsingu á því hvernig skal komast að upphafspunkti gönguleiðar.

Við gengum upp með stikum Rótarýklúbbsins og ákváðum að beygja til vinstri og halda fyrst á Geirmundartind. Göngustígurinn er nánast á brúninni alla leiðina svo það þarf að halda sig ofar en maður heldur ef þess er óskað að fylgja þeim óstikaða stíg í átt að gestabókinni. Fyrst er gengið á Guðfinnuþúfu en þar er einnig gestabók svo þið vitið að þið eruð á réttri leið þegar þangað er komið og þá er ekkert annað í stöðunni en halda áfram þar til að næstu gestabók og tind kemur.

Eftir að Geirmundartindi var náð héldum við áfram austur. Best er að reyna að fara eins austarlega og hægt er til að ganga meira ofan á öllum bungum og fellum í stað þess að fara niður í Berjadalinn eins og við gerðum. Það er nefnilega lúmskt erfitt að koma sér aftur upp úr honum í átt að Háahnúk svo ég hugsa nokkir auka kílómetrar með minni hækkun hefðu verið betri. Hins vegar var alveg gaman að ganga niður dalinn og undurfallegt svo kannski snýst mér hugur síðar þegar ég verð búin að prufa hina leiðina, haha!
Leiðin er lengri en hún sýnist svo gott er að gefa sér góðan tíma til göngunnar. Við vorum á smá spretti því við þurftum að ná heim fyrir ákveðinn tíma og ég mæli ekki með að vera í slíku stressi. Þá nær maður ekki að njóta náttúrunnar og göngunnar eins vel þó svo þetta hafi að sjálfsögðu verið hin fínasta æfing…..en það er nú önnur saga, hahaha!

Hér erum við komin á Háahnúk, þar er útsýnið fallegt alveg eins og hinumegin á Geirmundartindi!

Hér má sjá austur frá Háahnúk, þaðan sem við komum gangandi. Hægt er að fara niður dalinn og upp á mörgum stöðum en einnig er hægt að ganga þarna alveg utan með honum lengri leið og munum við prófa hana næst. Geirmundartindur er á vinstri hönd, hinumegin við dalinn en sést ekki á þessari mynd.

Það er síðan nokkuð auðsjáanlegur stígur frá Háahnúk og niður á bílaplan. Það er hins vegar komin brú neðst í Berjadalinn og ef þið viljið fara þá leiðina þarf að beygja til hægri á miðri niðurleið frá Háahnúk yfir á ómerktan slóða í stað þess að fara niður að klettagarðinum. Ég myndi mæla með því að fara yfir brúnna því það er soddan klöngur þarna í klettunum.
Hér getið þið annars séð góðar leiðarlýsingar að þessari skemmtilegu leið bæði hjá Af stað og Ferðafélagi Íslands.