
Já krakkar mínir, þá er komið að því að skrifa færslu um þessa ævintýraferð. Hún gæti orðið pínu löng en allir sem hafa áhuga á fjallgöngum og langar mögulega að toppa Hvannadalshnúk einhvern tímann á ævinni ættu að lesa lengra. Við náðum ekki að toppa þetta skiptið þar sem veðrið snérist hratt til verri vegar þegar við nálguðumst toppinn svo okkar tími fyrir toppinn kemur síðar! Við komumst í 1700 m hæð og þessi dagur var algjört ævintýri þó að við hefðum ekki komist alla þá leið sem við ætluðum okkur.

Mig langar hins vegar að segja ykkur frá minni reynslu, undirbúningi og fleiru svo hér kemur smá langloka……….

Ganga á hæsta tind Íslands krefst undirbúnings, bæði líkamlega, andlega og búnaðarlega séð. Við hjónin vorum á námskeiði í vetrarferðamennsku hjá Fjallhalla Adventurers síðan um áramót svo við vorum komin í fínasta vetrarfjallaform. Við vorum því ekki sérstaklega kvíðin því að ganga á Hnúkinn líkamlega séð, meira að spá í það hvort veðrið myndi haga sér og stilla andlegu hliðina inn á þrautseigju í bland við gleði. Við erum frekar nægjusöm þegar það kemur að búnaði en fyrir þessa ferð þurftum við aðeins að „step up our game“ þar sem þetta er jú á bilinu 12-15 klukkustunda ganga og veðrið gæti tekið á sig ýmsar myndir, haha!

Góðir bakpokar eru eitthvað sem okkur vantaði nauðsynlega, enda fleiri langar göngur framundan þetta árið. Við fjárfestum því loksins í draumapokunum frá Osprey en ég fékk mér Kyte kvennapoka og Hemmi Kestel göngubakpoka hjá Ellingsen. Við vorum bæði sammála um að þetta væri góð fjárfesting og fundum mikinn mun á því að ganga með almennilega poka, þunginn hvílir á mjöðmunum en ekki á öxlum og baki eins og áður!

Veðrið getur breyst hratt á fjöllum og jöklum svo það er mikilvægt að vera vel búinn og í góðum fatnaði. Það var fallegt veður þegar við lögðum af stað og var ég lengst af aðeins í þremur lögum, ullarbol, flíspeysu og primaloft jakka. Þegar veðrið versnaði fór ég í skelina og í stoppum og að hluta til á niðurleiðinni var ég í léttri, stórri dúnúlpu sem ég fékk lánaða hjá Erlu vinkonu minni, svo mér varð aldrei kalt. Ullarsokkar, góðir gönguskór, stafir, vatnsheldar göngubuxur, lambúshetta, dúnlúffur sem og þunnir vettlingar, húfa, eyrnaband, skíðagleraugu, jöklasólgleraugu og alls konar annað var einnig nýtt í bland og var að hluta til bara í bakpokanum á leiðinni, svo klæddi maður sig í og úr eftir því hvernig manni leið.

Hér sjáið þið svolítið mismunandi stemmingu eftir því hvernig veðrið hagaði sér og þegar fréttir bárust af því að hópnum yrði snúið við! Ullarbolinn sem ég var í innst keypti ég mér fyrir þessa ferð og hann er einn sá allra besti sem ég hef prófað, þunnur, með lambúshettu og hlýr. Mér fannst alveg æðislegt að geta dregið hettuna upp fyrir haus og munn þegar það blés hressilega.

Það er síðan mikilvægt að ná aðeins að hvíla sig þegar haldið er af stað út í nóttina í svona langa göngu. Við dvöldum á Fosshótel Jökulsárlón í tvær nætur og vorum því aðeins um kortér að keyra að upphafsstað göngunnar næsta dag. Hér í annarri færslu getið þið lesið ykkur nánar til um þetta dásamlega hótel.

Nauðsynlegt er að næra sig vel og við gerðum það svo sannarlega, bæði fyrir og eftir göngu. Hótelið sá síðan um að pakka morgunmat í nestispoka fyrir alla sem hægt var að sækja í móttökuna um miðja nótt til að borða á leiðinni á áfangastað, algjör snilld!

Gott rúm og nóg pláss fyrir allt göngudótið var vel þegið og mikið sem ég var glöð að ná að sofa í um þrjár klukkustundir áður en við héldum af stað! Það var spenningur í bland við kvíða sem bærðist um inni í mér og ég átti alls ekki von á því að geta sofnað en með því að mæta snemma á hótelið, koma sér fyrir, borða mikið og gott snemma…..þá hafðist þetta! Að sofa í þrjár klukkustundir er auðvitað ekki mikið en það munar sannarlega um það því sumir ná ekki að sofa neitt. Við hjónin grínuðumst með það að þetta væri líklega það næsta sem kæmist stemmingunni að vakna og fara til útlanda þessi misserin, nema hvað núna værum við bara á leiðinni upp á jökul en ekki í neina flugvél, hahaha!
Hér byrjar síðan göngusagan………..
8.maí 2021 kl:04:30

Fyrstu skrefin tekin við Sandfell og fallegur dagur framundan, eða það héldum við í það minnsta á þessari stundu!

Fegurðin allt um kring!

Toppurinn virkaði svo nærri…..en var síðan svo fjarri!

Fyrsti snjórinn að taka við….

Maður gengur sannarlega öruggur á eftir honum Gunnari leiðsögumanni!

Hér hugsaði ég bara „fegurð“ en ef vel er að gáð er toppurinn líklega farinn að sækja í sig veðrið strax á þessari stundu.

Nestispása tekin í „grunnbúðum“ og svo héldu hóparnir aftur af stað.

Í um 1500 m hæð fór veðrið að snúa sér en tekin var ákvörðun um að halda áfram með samþykki allra í hópnum þar sem við vonuðumst til þess að veðrið myndi ganga niður. Þegar við síðan náðum 1700 m hæð byrjuðum við að mæta öðrum hópum á niðurleið. Þá var víst orðið ansi snjóblint, hvasst og kalt ofar. Snjóbrú yfir stóra sprungu hafði gefið sig og þunnt lag af snjó búið að skafa yfir margar sprungur svo erfitt var að sjá þær. Það var því ekki öruggt að ganga lengra og öllum hópum snúið við, líklega um 100 manns í heildina. Hóparnir voru komnir mislangt en enginn náði upp á topp þennan daginn og skilst mér að það séu alveg um 30% líkur á því að ekki sé hægt að toppa þar sem skjótt skipast veður og því gott að hafa það bakvið eyrað þegar lagt er af stað í göngu sem þessa.

Það hvarflaði aldrei að mér að við myndum ekki toppa Hnúkinn þennan dag, bara alls ekki. Veðrið var svo undursamlegt að ég þakkaði fyrir það í hverju skrefi á uppleiðinni og var farin að sjá fyrir mér sólskinsbros á toppnum sjálfum. Þau voru því ansi þung skrefin á niðurleið og ég veit ekki hversu oft ég leit tilbaka og hugsaði „er þetta ekkert að lagast, ætlum við ekkert að snúa við“, hahaha! Sem betur fer þá eru þaulvanir leiðsögumenn sem stýra svona ferðum og þeir hafa að sjálfsögðu öryggi þátttakanda í fyrirrúmi svo ákvarðanir sem þessar þarf að virða og skilja.

Hér eru þeir Gunnar, Bjössi, Vjeran og Markús sem eru mennirnir sem við treystum fyrir lífi okkar þennan dag. Þeir eru allir frábærir og mikið sem ég vona að ég fái þann heiður að ganga með þeim á topp Hvannadalshnúks síðar!

Hér er síðan hluti af hópnum sem fór á vegum Fjallhalla í þessa ferð, við vorum um 20 manns í fjórum línum.

Við komum aftur niður á bílastæði um klukkan 14:00 eða rúmum 10 klukkustundum síðar og hlömmuðum okkur í grasið til að meðtaka daginn og ganga frá búnaðinum okkar.

Það var dásamlegt að skella sér í pott, gufu og slaka á í hvíldarherberginu á hótelinu eftir þetta ævintýri og síðan beið okkar hópsins sameiginlegur 3ja rétta kvöldverður. Þar var mikið spjallað og haft gaman, upp úr klukkan 22:30 var fólk þó orðið ansi syfjað og ætli það hafi ekki allir verið sofnaðir skömmu síðar, hahaha!

Maturinn sem við fengum þessa helgi var æðislega ljúffengur og ekki skemmdi fyrir hvað allir diskar voru fallegir.

Það er í það minnsta klárt mál að ég veit hvar mig langar til þess að dvelja þegar næsta tilraun verður tekin til að toppa Hvannadalshnúk!

Takk fyrir okkur Hnúkur…..We’ll be back!
Færsla þessi er unnin að hluta til í samstarfi við Fosshótel, Fjallhalla Adventurers og Ellingsen.