
Já krakkar mínir, ætli maður teljist ekki núna 100% miðaldra þegar maður hefur prófað gönguskíði og er búinn að kaupa golfsett, hahahaha! Hér erum við hjónin á leiðinni að prófa gönguskíði í fyrsta sinn!

Við erum á vetrarferðamennskunámskeiði með Fjallhalla Adventures og mig langar að fá að deila skemmtilegum ævintýrum með ykkur þaðan þegar við á. Við höfum lært á alls kyns búnað eins og ísexi, jöklabrodda, ganga í línu og að lesa í vetraraðstæður. Að þessu sinni prófuðum við gönguskíði, utanbrautargönguskíði. Okkur hefur alltaf langað til þess að prófa gönguskíði og var það einmitt ein af ástæðunum fyrir því að við skráðum okkur á námskeiðið. Svo kom dagurinn og við, sem erum alveg skíðafólk réðum illa við þessi mjóu löngu spjót í fyrstu, hahahaha……en það var nú samt fljótt að koma eftir nokkrar byltur og fjör!

Gunnar leiðsögumaður fór með okkur góðan hring á Bláfjallasvæðinu eftir nokkrar æfingaferðir upp og niður aflíðandi brekku þar sem við fengum að kynnast búnaðinum. Við eigum ekki gönguskíði og leigðum okkur slík hjá Everest. Það er algjör snilld að geta leigt skíðabúnað til að prófa og sjá hvort manni líki og hvort skynsamlegt væri að fjárfesta í slíkum í framhaldinu. Færið þennan daginn var frekar hart, enda lítið snjóað hér sunnan heiða það sem af er vetri. Gönguskíði eru klárlega frábær alhliða hreyfing (skulum ekkert ræða harðsperrurnar sem ég finn laumast um allan líkamann eftir daginn) og okkur fannst þetta mjög skemmtilegt. Við erum ákveðin í því að prófa aftur í betra færi og hver veit nema við fjárfestum í utanbrautarskíðum í framhaldinu. Það væri alls ekki leiðinlegt að geta skellt sér niður á Tungubakka eða upp í Heiðmörk að leika sér á þessu!

Skórnir minna helst á gönguskó, skíðin eru mjó og löng og stafirnir öðruvísi en á venjulegum skíðum. Okkur skildist síðan að ekki megi nota utanbrautarskíði á troðnum brautum svo þeir sem vilja leika sér þar þurfa að eiga brautarskíði sem eru enn mjórri, ekki með stálköntum og skórnir og stafirnir aðeins fyrirferðarminni.

Það jafnast fátt á við fallegan dag í fallegu umhverfi með skemmtilegum félagsskap. Ég mæli svo sannarlega með því að þið prófið svona búnað. Þetta snýst auðvitað að mestu um að setja bara annan fótinn fram fyrir hinn og reyna að halda jafnvægi en það er án efa betra að fá leiðsögn í fyrsta skipti eins og við gerðum hér.

Svo er líka hægt að rekast á alls kyns furðuhluti á leiðinni, hahaha!

Þreytt og alsæl kona setur hér punktinn í þessari færslu eftir frábæran dag.